Síðustu skrefin voru þung

Það lá vel á landsliðsfyrirliðanum Aroni Einari Gunnarssyni fyrirliða íslenska landsliðsins í knattspyrnu þegar hann ræddi við fjölmiðla eftir æfingu landsliðsins í Kabardinka í Rússlandi í morgun.

Aron Einar lék sinn fyrsta keppnisleik í tæpar sex vikur í gær þegar hann spilaði í 74 mínútur í 1:1 jafntefli gegn Argentínumönnum í fyrsta leik sínum á HM í Rússlandi.

„Ég er góður og líður vel. Ég er með smá harðsperrur og það er stífleiki en ég er ánægður með hvernig þetta þróaðist. Ég er virkilega ánægður að hafa náð að spila í tæpar 75 mínútur og nú hefst endurheimtin áður en maður keyrir þetta aftur í gang,“ sagði Aron Einar í samtali við mbl.is í morgun.

Baðst þú um skiptingu í leiknum eða var ákveðið að þú spilaðir þennan tíma?

„Já svona bæði og. Heimir var byrjaður að fylgjast með mér og var farinn að sjá að ég var farinn að detta aftur úr og hægari en vanalega, sérstaklega í kringum 70. mínútu. Þá spurði hann mig hvernig ég hefði það og ég sagði við hann fimm mínútur svo varamaðurinn gæti gert sig kláran. Planið var að ég myndi spila þar til ég væri gjörsamlega sigraður og síðustu skrefin af vellinum voru svolítið þung,“ sagði Aron Einar.

Aron Einar Gunnarsson ræðir við mbl.is á æfingasvæðinu í Kabardinka …
Aron Einar Gunnarsson ræðir við mbl.is á æfingasvæðinu í Kabardinka í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftir rúmlega fimm vikna hlé frá keppnisleik. Kom þér það á óvart hversu fljótur þú varst að ná taktinum?

„Já nokkurn veginn. En málið er að ég er ekki búinn að vera í slökun þessar fimm vikur. Ég er búinn að vera að vinna í forminu og leggja hart að mér með góðu fólki og þess vegna held ég að ég hafi náð þessum 75 mínútum í gær.

Konan og fjölskyldan eiga hrós skilið fyrir að koma mér á þann stað sem ég er á. Það var tilfinningarússibani að labba inn á völlinn í gær í ljósi þess að ég fór í aðgerð fyrir rúmum fimm vikum síðan. Að vinna þetta kapphlaup við tímann sem ég var í var mikil gleði,“ sagði Aron Einar en sjá má allt viðtalið við hann í myndspilaranum hér að ofan.

Aron Einar Gunnarsson fagnar eftir leikinn í gær.
Aron Einar Gunnarsson fagnar eftir leikinn í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert