Þetta var skammarlegt

Maradona með vindilinn í stúkunni á Spartak vellinum í gær.
Maradona með vindilinn í stúkunni á Spartak vellinum í gær. AFP

Argentínska goðsögnin Diego Maradona var ekki sátt við leik sinna manna gegn Íslendingum á HM í gær en liðin skildu jöfn 1:1 á Spartak vellinum í Moskvu.

„Ef þeir spila áfram saman er landsliðsþjálfarinn Jorge Sampaoli ekki velkominn til Argentínu,“ sagði Maradona í viðtali við sjónvarpsstöð í Venesúela í dag en hann var á meðal áhorfenda á leiknum í gær.

„Þetta er skammarlegt. Að hafa ekki undirbúið leikinn vitandi þess að Íslendingarnir eru allir 1.90 metrar á hæð. Ég hef þá tilfinningu að það vanti einhverja reiði í liðið,“ sagði Maradona sem varð heimsmeistari með Argentínu árið 1986 og var landsliðsþjálfari frá 2008-10.

„Ég kenni ekki leikmönnum um en það vantaði samt meiri vinnusemi, Messi gaf allt sem hann gat,“ sagði Maradona, sem sá Hannes Þór Halldórsson verja vítaspyrnu frá Messi um miðjan seinni hálfleik. „Ég klúðraði sjálfur fimm vítaspyrnum en var ennþá Diego Maradona. Ég held að liðið hafi ekki tapað tveimur stigum af því að Messi klúðraði vítaspyrnunni.“

Argentína mætir Króatíu á fimmtudaginn en á föstudaginn leika Íslendingar á móti Nígeríu.

mbl.is