Afríkuþjóðirnar fara illa af stað á HM

Victor Moses leikmaður Chelsea og nígeríska landsliðsins.
Victor Moses leikmaður Chelsea og nígeríska landsliðsins. AFP

Afríkuþjóðunum sem eru búnar að spila á HM í Rússlandi hefur ekki vegnað vel hingað til en ein slík verður næsti andstæðingur Íslands á föstudaginn.

Ísland og Nígería eigast við í Volgograd í 2. umferð D-riðilsins. Ísland gerði sem kunnugt er 1:1 jafntefli á móti tvöföldum heimsmeisturum Argentínu á laugardaginn en Nígeríumenn urðu að sætta sig við 2:0 ósigur á móti Króatíu.

Nígería, Egyptland og Marokkó eru Afríkuþjóðirnar sem eru búnar að spila á HM. Öll liðin töpuðu leikjum sínum án þess að skora eitt einasta mark en fengu á sig fjögur.

Föstu leikatriðin hafa gjarnan leikið Afríkuþjóðirnar grátt og til að mynda komu bæði mörk Króata eftir hornspyrnur. Í fyrra markinu skoraði Oghenekaro Etebo sjálfsmark og það seinna skoraði Luka Modric úr vítaspyrnu eftir brot í vítateignum eftir hornspyrnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert