Belgar sannfærandi eftir torsótta byrjun

Belgía vann sannfærandi 3:0-sigur á Panama í Sochi í fyrsta leik liðanna í G-riðli heimsmeistaramótsins í Rússlandi rétt í þessu. Öll mörkin komu í síðari hálfleik.

Belgar voru mikið mun sigurstranglegri fyrir leik en voru heldur þunglamalegir og stirðir fyrstu 45 mínúturnar. Staðan var markalaus í hálfleik en leikmenn Panama stóðu vaktina vel í vörninni í þau skipti sem á þá reyndi, sem voru ekki mörg.

Í síðari hálfleik brast loks stíflan. Belgar brutu ísinn strax á 47. mínútu með glæsimarki. Dries Mertens fékk hann til sín við vítateigshornið hægra megin og hann lyfti boltanum viðstöðulaust í fjærhornið, yfir Jamie Penedo í marki Panama.

Á 69. mínútu varð staðan 2:0-þegar Romelu Lukaku skallaði boltann í netið eftir fyrirgjöf Eden Hazard og Lukaku var ekki búinn. Sex mínútum síðar skoraði hann annað mark sitt með vippu yfir Penedo eftir að Hazard stakk boltanum inn fyrir á framherjann.

Belgar eru á toppi G-riðils en síðar í kvöld mætast England og Túnis í hinum leik riðilsins.

Romelu Lukaku (t.v.) fagnar öðru marka sinna með liðsfélögunum.
Romelu Lukaku (t.v.) fagnar öðru marka sinna með liðsfélögunum. AFP
Dries Mertens skoraði fyrsta mark Belga. Hér er hann í …
Dries Mertens skoraði fyrsta mark Belga. Hér er hann í baráttunni við Jose Luis Rodriguez (t.v) og Erick Davis (t.h.) í leiknum í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert