Ekki í jafngóðu formi og evrópsku liðin

Leikmenn Panama þakka stuðningsmönnum sínum eftir leikinn.
Leikmenn Panama þakka stuðningsmönnum sínum eftir leikinn. AFP

Hernan Dario Gomez, landsliðsþjálfari Panama, var hreinskilinn á blaðamannafundi eftir 3:0-tapið gegn Belgum í Sochi á heimsmeistaramótinu í Rússlandi í dag.

Leikmenn Panama vörðust vel í fyrri hálfleik áður en Dries Mertens kom Belgíu yfir strax í upphafi þess síðari. Romelu Lukaku bætti svo við tveimur mörkum til að innsigla afar verðskuldaðan og sannfærandi sigur.

„Engum þykir gaman að tapa en miðað við andstæðinginn og sögu okkar eru þetta eðlileg úrslit,“ sagði Gomez við blaðamenn.

„Þetta eru ekki jákvæð úrslit en þeir hefðu geta unnið okkur með enn meira yfirgnæfandi hætti. Sumt fólk hélt að við myndum tapa með sjö mörkum.“

Panama spilar í G-riðli og mætir næst Englandi á sunnudaginn kemur og svo Túnis í lokaumferðinni 28. júní. Gomez vill fyrst og fremst að leikmenn sínir spili fyrir stoltið.

„Ég sagði við strákana að við spiluðum með sæmd. Við erum ekki í jafngóðu formi og evrópsku liðin en við höldum áfram að læra og vaxa.“

Hernan Dario Gomez gengur af velli eftir tapið í dag.
Hernan Dario Gomez gengur af velli eftir tapið í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert