Íslend­ing­ar komu til að eyðileggja fót­bolt­ann

Hér ber að líta Íslandsvininn Vasilij Utkin.
Hér ber að líta Íslandsvininn Vasilij Utkin. Twitter/radioutkin

Einn frægasti íþróttafréttamaður Rússlands hefur gagnrýnt íslenska landsliðið í knattspyrnu harkalega, sem og Íslendinga almennt, en það gerði hann í mikilli einræðu í sinni eigin útsendingu á netmiðlinum Youtube.com.

Vasilij Utkin, sem er meðal annars umsjónarmaður þekktra sjónvarpsþátta um knattspyrnu sem og útvarpsmaður, skilur engan veginn hvernig einhver getur dáðst að íslenska liðinu. Íslendingar eru, að hans sögn, „víkingaaular sem komust aldrei til Ameríku fyrir þær sakir að þeir strönduðu á eyjunni sem síðar varð Ísland“. Og það er svo sannarlega ekki allt sem honum liggur á hjarta um Íslendinga.

Íslendingar eru bara víkingaaumingjar

„Ég veit að margir dást að íslenska liðinu en ég skil ekki af hverju. Þeir spila eins og þeir gera vegna þess að þeir eiga ekki annars úrkosti.

Hvernig er hægt að dást að ójöfnu í vegi? Hvernig geturðu haldið upp á einhvern sem kemur heim til þín og brýtur uppáhaldskristallsblómavasann þinn?“ hélt Utkin áfram og bætti svo við:

„Þetta fólk kom til að eyðileggja fótbolta. Íslendingar eru með lið sem getur staðist skot frá skriðdreka eða fallbyssu en hver getur dáðst að slíku?“

Utkin hefur ekki miklar mætur á þessum köppum.
Utkin hefur ekki miklar mætur á þessum köppum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þótt fjölmargir hafi lofsungið strákana okkar og árangur þeirra, þrátt fyrir smæð þjóðarinnar, er Utkin svo sannarlega á allt öðrum nótum.

„Þetta eru bara víkingaaumingjar sem fundu land sem ekki einu sinni kindur höfðust við á. Þeir héldu ekki áfram til Ameríku heldur urðu þarna eftir. Svona á fótboltinn ekki að vera.“

Af hverju komuð þið hingað til að trufla okkur?

Að lokum telur þessi geðþekki sjónvarpsmaður að Íslendingar séu ekkert annað en fólk sem eigi í mestu erfiðleikum með að búa á eyju á miðju Atlantshafi.

„Af hverju komuð þið hingað að trufla okkur þegar við vildum horfa á fótbolta? Því fyrr sem Íslendingar pakka saman og fara heim til eldfjallanna sinna, því betra.“

Stuðningsmenn íslenska landsliðsins í Rússlandi.
Stuðningsmenn íslenska landsliðsins í Rússlandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina