Verða nú að taka áhættu

Heimir Hallgrímsson á æfingu landsliðsins í Kabardinka í gær.
Heimir Hallgrímsson á æfingu landsliðsins í Kabardinka í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heimir Hallgrímsson segir úrslitin ein og sér í leik Nígeríu og Króatíu gefa sér gagnlegar upplýsingar í undirbúningnum fyrir föstudag en þá stýrir landsliðsþjálfarinn Íslandi gegn Nígeríumönnum í Volgograd, í öðrum leik liðsins á HM í knattspyrnu.

Heimir var glaðbeittur og gaf sér góðan tíma til að ræða við fjölmiðlamenn í Kabardinka í gær, sem flestir voru þá nýkomnir á svæðið aftur eftir ferðalagið frá Moskvu. Heimir og íslenski landsliðshópurinn yfirgáfu Moskvu nánast strax eftir sinn leik og var róleg æfing hjá liðinu í gær og frídagur í dag.

Eftir að Ísland náði í 1:1-jafnteflið frábæra við Argentínu vann Króatía 2:0-sigur á Nígeríu í hinum leik D-riðils:

„Ég er vísvitandi ekki búinn að sjá þann leik. Við ætlum að „klára“ okkar leik í dag og á morgun einbeitum við okkur algjörlega að Nígeríu,“ segir Heimir þegar ég spyr hann út í stöðuna í riðli Íslands.

„Úrslitin eru hins vegar þannig að þau hjálpa okkur til að vita hvað Nígería þarf að gera í næsta leik. Nígeríumenn verða að taka áhættu og vinna leikinn ef þeir ætla áfram í keppninni. En svo skoðum við núna leik þeirra við Króatíu vel og höfum auðvitað verið að leikgreina þá lengi. Ég er hrikalega ánægður með þjálfarateymið, hvernig það leikgreindi þennan Argentínuleik, og við vissum nákvæmlega hvað þeir myndu reyna gegn okkur og höfðum undirbúið okkur fyrir allt. Við náðum að stoppa ansi margar uppbyggingar í fæðingu. Það er vísbending um að menn hafi verið búnir að vinna vinnuna sína,“ segir Heimir, vongóður um að undirbúningsvinnan skili einnig góðum árangri á föstudag.

Sjá viðtalið í heild sinni og ítarlega umfjöllun um heimsmeistaramótið í Rússlandi í Morgunblaðinu í dag, í íþróttablaðinu og á fréttasíðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert