Parma reynir aftur við Birki

Birkir Bjarnason sækir að Max Meza í leik Íslands og …
Birkir Bjarnason sækir að Max Meza í leik Íslands og Argentínu á HM. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ítalska knattspyrnuliðið Parma reyndi að fá landsliðsmanninn Birki Bjarnason til liðs við sig frá Aston Villa í janúar án árangurs.

Samkvæmt fréttum frá Ítalíu í kvöld eru forráðamenn Parma aftur byrjaðir að reyna að fá Birki til liðs við sig og vilja fá hann í sumar en félagið tryggði sér sæti í ítölsku A-deildinni í vor.

Birkir gekk í raðir enska B-deildarliðsins Aston Villa frá svissneska liðinu Basel í janúar í fyrra. Alls hefur hann komið við sögu í 37 leikjum með Villa og hefur í þeim skorað 4 mörk en miðjumaðurinn öflugi hefur þurft að verma varamannabekkinn talsvert undir stjórn Steve Bruce.

Birkir er ekki ókunnugur ítalska fótboltanum en hann hefur spilað með ítölsku liðunum Pescara og Sampdoria. Hann á tvö ár eftir af samningi sínum við Aston Villa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert