Rússar með annan fótinn í útsláttarkeppnina

Denis Tsjerishev skoraði annað mark Rússa í leiknum í kvöld.
Denis Tsjerishev skoraði annað mark Rússa í leiknum í kvöld. AFP

Rússland og Egyptaland mættust í annarri umferð A-riðils heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í Pétursborg í dag en það voru Rússar sem fóru með sigur af hólmi, 3:1.

Staðan að loknum fyrri hálfleik var markalaus en á 47. mínútu varð Ahmed Fathi, fyrirliði Egypta, fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Denis Tsjerishev tvöfaldaði svo forystu Rússa á 59. mínútu áður en Artem Dzjuba skoraði þriðja mark heimamanna, þremur mínútum síðar. Mohamed Salah minnkaði muninn fyrir Egypta með marki úr vítaspyrnu á 73. mínútu en lengra komust þeir ekki og lokatölur því 3:1 fyrir Rússa.

Rússar eru á toppi A-riðils með 6 stig og eru komnir með annan fótinn í útsláttarkeppnina en Egyptar þurfa að treysta á að Sádi-Arabía vinni Úrugvæ á morgun til þess að eiga möguleika á því að komast upp úr riðlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert