Sambærilegt en ásýndin öðruvísi

Víðir Reynisson brosmildur á æfingasvæðinu í Kabardinka í dag.
Víðir Reynisson brosmildur á æfingasvæðinu í Kabardinka í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðir Reynisson öryggisstjóri KSÍ segir að allt hafi gengið að óskum varðandi öryggismál og aðbúnað íslenska karlalandsliðsins í Rússlandi en það dvelur í góðu yfirlæti í strandbænum Kabardinka við Svartahaf.

„Þetta hefur allt gengið mjög vel, en já, þetta er vissulega að sumu leyti öðruvísi en var í Frakklandi," sagði Víðir við mbl.is í dag, aðspurður um hans sýn á muninum á öryggismálum Rússa og hvernig þau voru hjá Frökkum í úrslitakeppni Evrópumótsins sumarið 2016.

„Menn hafa talað um að þeim finnist öryggisgæslan ekki eins sýnileg hérna. Í Frakklandi muna menn eftir því að í París voru skriðdrekar á götunum. Ástandið í Rússlandi er ekki þannig. En öll gæslan í kringum okkur er mjög mikil og þó strákarnir fari niður í bæ, þá fylgja þeim óeinkennisklæddir lögreglumenn. Gæslan er mikil en öðruvísi uppsett en í Frakklandi og okkur líður bara mjög vel með hana. Við erum mjög sáttir við allt skipulagið.“

Þurfa ekki að nota herinn eins og Frakkar

Evrópumótið í Frakklandi 2016 var haldið í kjölfar hryðjuverka í landinu og öryggisgæslan var því gríðarleg eins og Víðir og aðrir sem tengdust landsliðinu fengu að kynnast.

Íslensku landsliðsmennirnir í byrjun æfingarinnar í Kabardinka í dag.
Íslensku landsliðsmennirnir í byrjun æfingarinnar í Kabardinka í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Rússar eru á svipuðu stigi og Frakkarnir voru með sínar varnir, en þeir eru greinilega með öflugri löggæslu en Frakkar og hafa ekki þurft að nota herinn í þessa gæslu eins og þeir gerðu. Þetta er mjög sambærilegt að mörgu leyti en ásýndin aðeins öðruvísi.“

Hann er afar ánægður með dvalarstað íslenska liðsins í Kabardinka.

„Já, þetta er frábær staður, finnst okkur. Við völdum þetta hótel í fyrravor, þá leit þetta bara dásamlega út eins og það gerir núna. Síðan komum við hingað í vetur, þegar hér var nánast enginn, það var kalt, hvasst, og brimið var eins og að koma til Vestmannaeyja. Okkur Heimi fannst það æðislegt!

En það kom ýmislegt í ljós á hótelinu sem þurfti að laga. Við skiluðum af okkur skýrslu eftir ferðina og hótelið brást vel við því. Það var búið að laga nánast allt þegar við komum aftur í febrúar, og tvisvar í vor var búið að gera allt sem við báðum um.

Æfingasvæðið er frábært og strákarnir eru svakalega ánægðir með völlinn. Búningsklefarnir er alveg nýir með öllum helstu þægindum sem þarf. Hér er allt til alls og fyrir mig, varðandi öryggismálin, er þetta mjög þægilegt. Völlurinn er afgirtur, bara tveir inngangar og auðvelt að stýra aðgenginu. Öll aðstaða er eins og við viljum hafa það best," sagði Víðir.

Æfingasvæðið í Kabardinka er glæsilegt og mun nýtast vel félaginu …
Æfingasvæðið í Kabardinka er glæsilegt og mun nýtast vel félaginu á staðnum eftir að HM lýkur. mbl.is/Skapti Hallgrímsson


Rennislétt gras og ótrúlega flott

Sjálfur æfingavöllurinn er glæsilegur og varla mishæð á honum að finna og Víðir tók undir það.

„Já, grasið er rennislétt og ótrúlega flott. Þeir voru að klára að leggja grasið þegar við komum í desember, og þeir settu síðan gervigras alls staðar í kring til að hafa aðkomuna sem snyrtilegasta, þannig að þetta er eins og best getur verið. Þegar við komum í fyrravor var stúkan í niðurníðslu. Hún var í kjölfarið nánast brotin niður og endurbyggð, allt inni í henni er nýtt, ný sæti og ný flóðljós við völlinn. Þetta er flott fyrir klúbbinn hérna sem á þetta því hann stendur eftir með glæsilegan völl. Þeir höfðu víst ætlað sér að leggja gervigras á völlinn en nú er ekki víst að þeir tími því eftir að hafa fengið þetta gras," sagði Víðir en heimamenn í Kabardinka leika í einni af neðri deildum Rússlands.

Varavöllur í Novorossijsk

„Við erum annars með varavöll í klukkutíma akstursfjarlægð, í Novorossijsk hérna skammt frá, og þar er lið sem leikur í 2. deild og er með 10 þúsund manna völl með stúku allan hringinn. Sá völlur lítur hinsvegar ekki eins vel út og þessi. Ef eitthvað kemur fyrir hér og getum ekki æft, þá megum við fara þangað.

Það rigndi ekki lítið á tímabili í gær, völlurinn fór á flot, en hann var búinn að drena sig á 15-20 mínútum eftir að hætti að rigna. Það er því ljóst að hann er eins vel gerður og mögulegt er.

Fyrirtæki á vegum FIFA tók út öll æfingasvæðin og gaf okkur skýrslur reglulega. Þessi völlur var með toppeinkunn eftir þær úttektir. Það sér ekki á vellinum þó við séum búnir að æfa á honum í 10 daga og búin að koma ausandi rigning,“ sagði Víðir Reynisson.

mbl.is