Auðvelt að lesa okkur en erfitt að verjast

Alfreð Finnbogason og Hannes Þór Halldórsson á fréttamannafundinum í Kabardinka …
Alfreð Finnbogason og Hannes Þór Halldórsson á fréttamannafundinum í Kabardinka í dag. Þeir flugu svo til Volgograd síðdegis. mbl.is/Eggert

Hannes Þór Halldórsson og Alfreð Finnbogason reikna með allt annars konar leik gegn Nígeríu á föstudag en gegn Argentínu síðastliðinn laugardag, á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Rússlandi.

„Þetta verður kannski aðeins opnari leikur. Nígería er mjög líkamlega sterkt lið, með fljóta leikmenn og kannski beinskeyttari en Argentína. Þetta verður ólíkur leikur að mörgu leyti,“ sagði Hannes á fréttamannafundi í dag. Ísland gerði 1:1-jafntefli við Argentínu en Nígería tapaði 2:0 fyrir Króatíu í fyrsta leik.

„Já, þetta verður allt annar leikur. Þeir spila öðruvísi fótbolta og eru öðruvísi leikmenn. Þeir eru ekki litlir og teknískir eins og Argentína, heldur stærri og sterkari. En við erum nokkuð vel undirbúnir. Við höfum átt góða fundi um þá, og við fengum góðan undirbúning gegn Gana sem er svipað lið að mörgu leyti. Við erum vel undirbúnir,“ sagði Alfreð en Ísland mætti Gana í síðasta leik sínum fyrir HM og gerði 2:2-jafntefli.

Alfreð var spurður að því hvernig Ísland kæmi til með að sækja gegn nígeríska liðinu og hverjar helstu sóknaraðferðir íslenska liðsins væru:

„Við skorum mikið úr föstum leikatriðum en við höfum ýmsar leiðir. Við getum skorað eftir klafs í teignum en líka góð fótboltamörk. Markið okkar gegn Argentínu kom til að mynda eftir stórkostlegt spil hjá Gylfa og Jóhanni, og svo klafs í teignum þar sem boltinn datt þangað sem framherjinn á að vera. Mörkin gegn Englandi í 16-liða úrslitum á EM segja líka allt; eitt klassískt, íslenskt eftir innkast en svo annað sem var eftir langa og magnaða sókn. Við erum fjölhæfir, kannski er auðvelt að lesa okkur en samt sem áður erfitt að verjast,“ sagði Alfreð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert