„Hökutoppurinn færði mér lukku“

Cristiano Ronaldo, besti knattspyrnumaður heims og fyrirliði Portúgal, hefur byrjað heimsmeistaramótið í Rússlandi með miklum látum. Hann skoraði þrennu í 3:3 jafntefli Spánverja og Portúgala í fyrstu umferð B-riðils heimsmeistaramótsins og þá tryggði hann Portúgölum sigur á Marokkó í annarri umferðinni í dag.

Hann skartaði hökutoppi í leiknum gegn Marokkó sem vakti talsverða athygli en hann ætlar sér ekki að raka hann í burtu fyrr en HM lýkur. „Þetta byrjaði sem hálfgert grín á milli mín og Ricardo Quresma, liðsfélaga míns í landsliðinu. Ég var í gufu eftir æfingu og ég byrjaði að raka mig,“ sagði Ronaldo eftir leik Portúgala og Marokkó.

„Ég ákvað að skilja smávegis eftir og sagði við Quaresma að ef ég myndi skora gegn Spánverjum myndi ég ekki raka mig fyrr en HM lyki. Á endanum færði hökutoppurinn mér lukku. Ég skoraði í leiknum, og líka í dag gegn Marokkó þannig að hökutoppurinn er ekki að fara neitt,“ sagði Ronaldo léttur að lokum.

Cristiano Ronaldo er markahæsti leikmaður HM með fjögur mörk í ...
Cristiano Ronaldo er markahæsti leikmaður HM með fjögur mörk í tveimur leikjum. AFP
mbl.is