Kastljósið sé á þá sem eru hérna

Alfreð Finnbogason á blaðamannafundinum í Kabardinka í dag.
Alfreð Finnbogason á blaðamannafundinum í Kabardinka í dag. mbl.is/Eggert

Blaðakona Expressen í Svíþjóð var mætt til Kabardinka í morgun og vildi vita hversu sárt íslenska landsliðið í knattspyrnu saknaði þjálfarans Lars Lagerbäck og hversu mikilvægur hann hefði verið í árangri Íslands.

„Lars Lagerbäck gaf okkur gríðarlega mikið. Hann kom inn á góðum tíma því íslenskur fótbolti þurfti mann eins og hann, með alþjóðlega reynslu. Við lærðum margt af honum og hann gerði frábæra hluti með okkur, en síðan hann fór höfum við þróast enn frekar. Hans áhrif eru samt áfram til staðar,“ sagði Hannes Þór Halldórsson landsliðsmarkvörður.

Framherjinn Alfreð Finnbogason skaut aðeins á Lagerbäck eftir 1:1-jafnteflið við Argentínu á laugardag og sagðist finna allt annað traust frá núverandi þjálfurum Íslands. Hann tjáði sig ekki frekar um það en sagði að núverandi þjálfarar og leikmenn liðsins ættu skilið að fá sviðsljósið núna.

„Já, líkt og Hannes sagði þá hafði Lars mikil áhrif á fótboltann sem við spilum í dag, gerði margt frábært fyrir íslenskan fótbolta og verður alltaf minnst fyrir það. En ég held að núna, eftir þessa undankeppni HM og úrslitin sem liðið náði, ætti kastljósið að vera á starfsliðið og leikmennina sem eru hérna. Við höfum tekið annað skref fram á við í að þróa liðið, með því að vera meira sveigjanlegir í leikaðferð auk þess sem fleiri leikmenn taka þátt og hafa meiri reynslu en áður. Við megum ekki gleyma því sem Lars gerði fyrir íslenskan fótbolta en nú ættum við að hugsa um þá sem eru hérna,“ sagði Alfreð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert