Vel búnir undir mjög erfiðan leik

Helgi Kolviðsson á fréttamannafundinum í Kabardinka fyrir stundu.
Helgi Kolviðsson á fréttamannafundinum í Kabardinka fyrir stundu. mbl.is/Eggert

Helgi Kolviðsson, aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins í knattspyrnu, segir að liðið búi sig undir mjög erfiðan leik gegn Nígeríu en liðin eigast við í 2. umferð D-riðilsins á HM í Volgograd á föstudaginn.

Veðurspáin í Volgograd á föstudaginn gerir ráð fyrir því að það verði léttskýjað og 32 stiga hiti.

„Við höfum alveg rætt um þær aðstæður sem bíða okkar og við tökum á því þegar að því kemur. Við höfum fengið ráðleggingar frá læknateymi okkar en aðstæðurnar verða þær sömu fyrir bæði lið,“ sagði Helgi Kolviðsson á fréttamannafundi landsliðsins í Kabardinka í Rússlandi í morgun.

Eins og fram kom á mbl.is fyrr í morgun er óvíst hvort Jóhann Berg Guðmundsson geti verið með en hann tognaði í kálfa snemma í seinni hálfleik í leiknum á móti Argentínu og hefur ekkert æft með liðinu síðan þá.

„Jóhann Berg er tæpur vegna meiðslanna og það er óvíst hvort hann spili. Ef hann spilar þá munum við eðlilega gera breytingu á byrjunarliðinu og það er alveg inni í myndinni að fleiri breytingar verði gerðar,“ sagði Helgi.

Helgi var spurður um Gylfa Þór Sigurðsson sem tók því rólega á æfingunni í gær:

„Gylfi hljóp manna mest í leiknum á móti Argentínu. Hann stjórnar sínu álagi og tók sitt eigið „prógramm“ í gær,“ sagði Helgi.

Lærðum mikið af Ganaleiknum

Nígeríumenn töpuðu fyrsta leik sínum á HM 2:0 á móti Króatíu og þeir þurfa því nauðsynlega á sigri að halda til að eiga möguleika á að komast áfram í 16-liða úrslitin.

„Það er alveg ljóst að þetta verður erfiður leikur. Nígería hefur meiri reynslu en við á HM. Liðið er að taka þátt í sínu fimmta heimsmeistaramóti og hefur í þrígang komist áfram. Leikmenn Nígeríu eru stórir, sterkir og fljótir en við verðum vel undirbúnir fyrir þennan erfiða leik,“ sagði Helgi.

„Það var mikilvægt að fá þennan leik á móti Gana sem góðan undirbúning fyrir Nígeríuleikinn. Við lærðum mikið af þeirri reynslu sem við fengum út úr þeim leik. Það er ekki gott að segja til um það hvernig Nígeríumennirnir koma til að spila gegn okkur. Þeir hafa verið að reyna ýmis afbrigði en við vitum um hættur þeirra,“ sagði Helgi, áður en hann hélt út á æfingu landsliðsins í Kabardinka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert