Allir með nema Jóhann Berg

Jóhann Berg Guðmundsson fylgdist með æfingunni í morgun en tók …
Jóhann Berg Guðmundsson fylgdist með æfingunni í morgun en tók ekki neinn þátt í henni. Sat drjúga stund á bolta og fylgdist með félögum sínum í reitabolta. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Íslenska landsliðið er þessa stundina á æfingu í steikjandi hita á Volgograd Arena í Rússlandi en á þeim velli mæta Íslendingar liði Nígeríumanna á HM í knattspyrnu á morgun.

Jóhann Berg Guðmundsson er ekki með á æfingunni og þar með nokkuð ljóst að hann spilar ekki á morgun en Jóhann meiddist á kálfa snemma í síðari hálfleik í leiknum gegn Argentínumönnum um síðustu helgi. Jóhann fylgdist með félögum sínum af hliðarlínunni þar sem hann var á strigaskónum.

Margir furðuðu á sig hvers vegna íslenska liðið æfir á heitasta tíma dagsins en hádegisæfingar hafa jafnan verið hjá landsliðinu frá því Svíinn Lars Lagerbäck tók við þjálfun landsliðsins og því hefur ekki verið breytt eftir að Lars hætti og Heimir Hallgrímsson tók alfarið við landsliðinu.

Reiknað er með að tæplega 3 þúsund Íslendingar verði á meðal áhorfenda á nýjum Volgograd Arena á morgun en töluvert færri Nígeríumenn hafa boðað komu sína á leikinn. Þeir gætu aðeins skipt hundruðum. Leikvangurinn tekur tæplega 44 þúsund áhorfendur.

Það er 31 stigs hiti í Volgograd og léttskýjað og veðrið verður með sama hætti á morgun þegar leikurinn hefst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert