Króatar áfram eftir öruggan sigur á Argentínu

Luka Modrić skoraði stórkostlegt mark fyrir Króata í kvöld gegn …
Luka Modrić skoraði stórkostlegt mark fyrir Króata í kvöld gegn Argentínu. AFP

Argentína og Króatía mættust í annarri umferð D-riðils heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu í Nis­hnij Novg­orod í kvöld en leiknum lauk með 3:0 sigri Króata. 

Króatar eru því komnir áfram í sextán liða úrslit keppninnar en liðið er í efsta sæti D-riðils með 6 stig eftir fyrstu tvo leiki sína. Argentína er með 1 stig í öðru til þriðja sætinu, líkt og Ísland, og Nígería er á botni riðilsins með ekkert stig. Ísland og Nígería mætast í Volgograd klukkan 15 að íslenskum tíma á morgun. Sigur gegn Nígeríu myndi setja íslenska liðið í lykilstöðu fyrir lokaleik liðsins gegn Króötum 26. júní í Rostov.

Enzo Pérez, leikmaður Argentínu, fékk fyrsta færi leiksins þegar hann klikkaði fyrir opnu marki á 29. mínútu. Mario Mandžukić, framherji Króata, fékk svo annað dauðafæri, þremur mínútum síðar þegar hann fékk frían skalla inn í markteig en boltinn fór fram hjá markinu.

Það var Ante Rebić sem kom Króötum yfir á 53. mínútu eftir skelfileg mistök Willy Caballero í marki Argentínu. Luka Modrić tvöfaldaði svo forystu Króata á 80. mínútu með stórkostlegu skoti fyrir utan teig. Ivan Rakitić innsiglaði svo sigur Króatíu með marki í uppbótartíma eftir að Króatar höfðu sundurspilað varnarmenn Argentínu og lokatölur því 3:0 sigur Króata.

Argentína 0:3 Króatía opna loka
90. mín. Argentína fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert