Eru miklir íþróttamenn

Íslenska landsliðið á æfingu á Volgograd Arena í morgun.
Íslenska landsliðið á æfingu á Volgograd Arena í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari í knattspyrnu segir að Nígeríumenn séu líkamlega mjög sterkir en Ísland og Nígería eigast við á Volgograd Arena á morgun í 2. umferð riðlakeppninnar á HM.

Heimir var spurður út í nígeríska liðið á fréttamannafundi íslenska landsliðsins sem nú stendur yfir á Volgograd Arena;

„Styrkleiki þeirra felst í líkamlega þættinum. Þeir eru líkamlega sterkir, fljótir og miklir íþróttamenn. Þeir hafa mikla hlaupagetu, eru beinskeyttir og mjög gott skyndisóknalið. Ég verð að hrósa þjálfara þeirra fyrir skipulagið.

Ef að maður skoðar síðustu leiki þeirra sér maður hvað þeir eru orðnir vakandi fyrir því að halda góðu skipulagi. Þeir hafa svo margt sem gott fótboltalið þarf, og þegar maður skoðar einstaklingana þá spila þeir á hæsta stigi úti um Evrópu. Þetta er mjög gott lið með mikið af einstaklingshæfileikum,“ segir Heimir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert