Brasilía sigrar í uppbótartíma

Neymar og Douglas Costa fagna marki þess fyrrnefnda.
Neymar og Douglas Costa fagna marki þess fyrrnefnda. AFP

Brasilía sigraði Kostaríku 2:0 í E-riðli heimsmeistaramótsins í knattspyrnu, en leikurinn fór fram í Sankti-Pétursborg.

Lengi vel leit út fyrir að leikurinn myndi enda með jafntefli. Þrátt fyrir að Brasilíumenn hafi sótt nær allan leikinn tókst þeim ekki að skapa sér mikið af hreinum marktækifærum. Kostaríka var sátt með að halda stiginu og hætti sér því ekki framarlega á völlinn.  

Á 79 mínútu gerðist umdeilt atvik. Neymar féll í teignum við litla snertingu og Björn Kuipers, dómari leiksins, dæmdi vítaspyrnu. En þegar Neymar var búinn að stilla sér upp á vítapunktinum fékk Kuipers skilaboð frá myndbandsdómurunum. Eftir að hafa skoðað brotið aftur hætti Kuipers við að dæma vítaspyrnuna.

En linnulausar sóknir Brasilíu skiluðu loks árangri. Þegar venjulegum leiktíma var lokið tókst Coutinho að koma boltanum í netið af stuttu færi eftir hamagang í teignum. Neymar tókst síðan að tvöfalda forustuna á 7 mínútu í uppbótartíma eftir undirbúning Douglas Costa.

Staðan í E-riðli er sú að Brasilía er efst með 4 stig eftir tvo leiki. Kostaríka er aftur á móti stigalaust eftir sama leikjafjölda. Seinna í dag klárast 2. umferð í E-riðlinum þegar Serbía mætir Sviss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert