„Ég bara hitti ekki markið“

Gylfi Þór Sigurðsson í baráttunni vð miðjumenn Nígeríu í dag.
Gylfi Þór Sigurðsson í baráttunni vð miðjumenn Nígeríu í dag. AFP

„Það er gríðarlega svekkjandi að tapa þessum leik, sérstaklega ef við horfum á það hvernig fyrri hálfleikurinn spilaðist,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson, miðjumaður ís­lenska landsliðsins í knatt­spyrnu í sam­tali við RÚV eft­ir 2:0 tap liðsins gegn Níg­er­íu í ann­arri um­ferð D-riðils heims­meist­ara­móts­ins í Volgograd í dag.

Ah­med Musa skoraði bæði mörk Níg­er­íu í síðari hálfleik en ís­lenska liðið er nú í þriðja sæti D-riðils með 1 stig, líkt og Arg­entína en Króatía er á toppi riðils­ins með 6 stig og Níg­er­ía er í öðru sæt­inu með 3 stig. Ísland þarf því að vinna Króata í loka­leik sín­um í riðlin­um, 26. júní næst­kom­andi í Rostov og treysta á að Níg­er­ía tapi stig­um gegn Arg­entínu. 

„Við vorum opnir í seinni hálfleik sem er mjög ólíkt okkur og þeir voru að fá mikið af skyndisóknum, við fáum svo víti þarna í seinni hálfleik til þess að minnka muninn og það er erfitt að taka þessu. Ég bara hitti ekki markið í vítaspyrnunni, það var ekki flóknara en það.“

Gylfi Þór lætur vaða á markið gegn Nígeríu.
Gylfi Þór lætur vaða á markið gegn Nígeríu. AFP

Möguleikinn ennþá til staðar

Gylfi telur að liðið hafi ætlað sér um of í síðari hálfleik og því fór sem fór.

„Það er erfitt að átta sig á því nákvæmlega hvað gerist hjá okkur í seinni hálfleik, svona stuttu eftir leik. Kannski ætluðum við okkur of mikið á of skömmum tíma í staðinn fyrir að vera bara rólegir og þéttir eins og í fyrri hálfleik. Okkur gengur oftast best þegar að við spilum þannig og við fáum alltaf okkar færi. Við vorum að reyna skora snemma og það fór gekk engan vegin upp í dag.“

Þrátt fyrir tap í dag hefur Gylfi ekki gefist upp og telur að það séu ennþá möguleikar að komast áfram í sextán liða úrslit keppninnar.

„Fyrri hálfleikurinn var flottur hjá okkur og við tökum það með okkur inn í leikinn gegn Króatíu. Möguleikinn er ennþá til staðar fyrir okkur og þetta er ekki búið ennþá,“ sagði Gylfi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert