Ekki sjálfum okkur líkir í seinni hálfleik

Ari Freyr Skúlason í leikslok í kvöld.
Ari Freyr Skúlason í leikslok í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við töpuðum en það er einn leikur eftir. Möguleikinn á að komast í 16-liða úrslit er enn fyrir hendi,“ sagði Ari Freyr Skúlason, landsliðsmaður í knattspyrnu, eftir tap, 2:0, íslenska landsliðsins fyrir Nígeríu á HM í knattspyrnu í Volgograd í Rússlandi í dag.  

Ari Freyr kom inn á leikvöllinn sem varamaður á 87. mínútu. Hann segir það hafa verið erfitt að koma inn á í þessari stöðu en hann hafi reynt hvað hann gat. „Eina sem var hægt að gera var að berjast og hvetja strákana áfram. Við fengum tækifæri til að þess að komast inn í leikinn þegar við fengum vítaspyrnuna sem nýttist því miður ekki. Svona er fótboltinn,“ sagði Ari Freyr í samtali við mbl.is í Volgograd.

Ari Freyr sagði menn vera vonsvikna yfir frammistöðunni í síðari hálfleik í dag. „Við vorum þokkalega öflugir í fyrri hálfleik, vorum hættulegir í föstum leikatriðum og náðum nokkrum hættulegum sóknum.  Í seinni hálfleik vorum við ekki sjálfum okkur líkir,“ sagði Ari Freyr sem er síður en svo af baki dottinn.

„Við ætlum okkur eins langt og við getum á þessum móti. Þrjú stig verða í boði í næsta leik. Þótt við séum svekktir núna þá höfum við fulla trú á að við getum unnið Króata á þriðjudaginn,“ sagði Ari Freyr Skúlason, landsliðsmaður í knattspyrnu, í samtali eftir tapið í Volgograd í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert