Kannski áttu þeir erfitt með hitann

Gernot Rohr, hinn þýski þjálfari Nígeríu.
Gernot Rohr, hinn þýski þjálfari Nígeríu. AFP

„Ég vil þakka Íslandi fyrir sanngjarnan en harðan slag,“ sagði þýski þjálfarinn Gernot Rohr eftir að hafa stýrt Nígeríu til 2:0-sigurs gegn Íslandi á HM í knattspyrnu í Volgograd í dag.

„Þeir vissu í hálfleik að þeir þyrftu að gera mun meira,“ sagði Rohr um sína menn. „Við vorum að spila við mjög gott lið sem var betra í fyrri hálfleik en skoraði ekki. Við vorum betri í seinni hálfleik. Ég vil þakka Íslandi fyrir sanngjarnan en harðan slag. Ég virði þetta lið fyrir sanngirni þess og hugarfar, jafnvel eftir leik. Við breyttum skipulaginu í 3-5-2 og Victor Moses fékk að spila þar sem hann spilar hjá Chelsea, fyrirliðinn [John Obi Mikel] fór í stöðuna sem hann hefur spilað í sínum félagsliðum. Þeir gerðu sitt vel. Við fengum meira pláss í seinni hálfleik og hraðinn hjá [Ahmed] Musa hjálpaði okkur mikið,“ sagði Rohr á blaðamannafundi eftir leik.

„Lykillinn var að ná góðum skyndisóknum. Við erum með aðeins meiri hraða en Ísland, og erum kannski tæknilega betri á miðjunni í einnar snertingar bolta. Ísland er hins vegar gott lið sem á skilið að vera í 20. sæti á FIFA-listanum og við óskum Íslendingum góðs gengis,“ sagði Rohr, fullur virðingar fyrir andstæðingum sínum.

Lýsir leiknum við Argentínu sem úrslitaleik riðilsins

Nígeríu dugar nú sigur gegn Argentínu á þriðjudag til að komast í 16-liða úrslit:

„Þetta verður úrslitaleikur í riðlinum. Við spilum til að vinna, eins og við gerðum í vináttulandsleik í vetur en þá var enginn Messi í liðinu. Við vitum að við getum unnið, erum með sjálfstraust en samt niðri á jörðinni. Við höfum mikinn baráttuanda og þó að við gerum mistök, eins og í vítinu, þá eru ungir leikmenn að öðlast reynslu með því. Ég sagði áður að við værum að undirbúa okkur fyrir HM 2022 en við eigum góða möguleika á að vinna Argentínu,“ sagði Rohr. Hann var spurður um hvað lagt hefði verið upp með til að verjast Íslandi:

Ahmed Musa og félagar höfðu ærna ástæðu til að fagna …
Ahmed Musa og félagar höfðu ærna ástæðu til að fagna í kvöld. AFP

Omeruo kom inn til að verjast Íslendingum í loftinu

„Við notuðum annað skipulag en áður, með þrjá varnarmenn, og Kenneth Omeruo kom inn og er mjög góður í að verjast í loftinu, eins og þarf gegn Íslandi. Við vorum allir vonsviknir eftir tapið gegn Króatíu, en ég var samt ánægður með að þeir fengu varla fleiri færi en þegar þeir skoruðu sín tvö mörk. Leikmennirnir leggja mjög hart að sér, líkt og starfsfólkið í kringum liðið, og í seinni hálfleik í dag sáum við afraksturinn af því,“ sagði Rohr.

Aðspurður hvort hitinn í Volgograd hefði haft áhrif í kvöld svaraði þjálfarinn:

„Það var kominn skuggi yfir völlinn þegar leikur hófst og það var ekki svo hlýtt. Ég sagði við strákana í hálfleik að hitinn væri okkar forskot gegn íslensku leikmönnunum. Kannski áttu þeir erfitt með að glíma við hitann í seinni hálfleik, en ég held að gæðin í okkar leikmönnum hafi ráðið úrslitum mun frekar en hitastigið,“ sagði Rohr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert