Sá illa og fann fyrir svima

Ragnar Sigurðsson fór meiddur af velli gegn Nígeríu eftir höfuðhögg.
Ragnar Sigurðsson fór meiddur af velli gegn Nígeríu eftir höfuðhögg. AFP

„Þeir voru í skyndisókn og mér fannst við vera ansi fámennir tilbaka. Það var einn hjá þeim frír á fjærstönginni og ég var að reyna loka á þá sendingu. Mér fannst hann hitta boltann illa þannig að hann fer á minn mann í staðinn og ég er ekki nægilega fljótur að loka á hann. Ég fæ svo hnéð á honum í hnakkann og eftir það þá byrjaði mig að svima. Við erum með tvo góða miðverði á bekknum og það besta í stöðunni var að annar hvor þeirra myndi koma inn á,“ sagði Ragnar Sigurðsson, varnarmaður ís­lenska landsliðsins í knatt­spyrnu í sam­tali við RÚV eft­ir 2:0 tap liðsins gegn Níg­er­íu í ann­arri um­ferð D-riðils heims­meist­ara­móts­ins í Volgograd í dag.

Ah­med Musa skoraði bæði mörk Níg­er­íu í síðari hálfleik en ís­lenska liðið er nú í þriðja sæti D-riðils með 1 stig, líkt og Arg­entína en Króatía er á toppi riðils­ins með 6 stig og Níg­er­ía er í öðru sæt­inu með 3 stig. Ísland þarf því að vinna Króata í loka­leik sín­um í riðlin­um, 26. júní næst­kom­andi í Rostov og treysta á að Níg­er­ía tapi stig­um gegn Arg­entínu.

Ragnar fékk skurð á höfuðið og þurfti talsverða aðhlynningu.
Ragnar fékk skurð á höfuðið og þurfti talsverða aðhlynningu. AFP

Best að fara af velli

Ragnar þurfti talsverða aðhlynningu eftir meiðslin og var spurður að því hvort hann hefði átt að fara út af fyrr í leiknum. 

„Það hefði ekki skipt neinu máli hvort ég hefði farið út af strax eftir markið eða á 65. mínútu. Ég er í góðu formi og hefði alveg getað haldið áfram en um leið og ég fór að sjá illa og finna fyrir svima þá vissi ég að það besta í stöðunni væri að fá einhvern annan inn á. Við vorum alveg með þá í fyrri hálfleik og fengum ágætis tækifæri í sóknarleiknum. Svo skora þeir mark á okkur snemma í síðari hálfleik og þá fá þeir ákveðinn byr undir báða vængi og taka yfir leikinn," sagði Ragnar að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert