Veit ekki í hvaða samhengi þú ert að setja þetta

Heimir Hallgrímsson kallar inn skilaboð þegar Kári Árnason undirbýr innkast …
Heimir Hallgrímsson kallar inn skilaboð þegar Kári Árnason undirbýr innkast í leiknum í Volgograd í kvöld. AFP

Heimir Hallgrímsson var spurður að því hvort hann sæi eftir því að hafa leyft leikmönnum íslenska landsliðsins að hitta fjölskyldur sínar í Volgograd í gær, daginn fyrir leikinn við Nígeríu á HM í knattspyrnu.

Spurningin kom frá rússneskum blaðamanni sem virtist vilja vita hvort Heimir sæi eitthvert samhengi á milli þess að leikmenn fengu að hitta sínar fjölskyldur, og þess að leikurinn við Nígeríu tapaðist 2:0.

„Ég veit ekki af hverju þessi umræða fór af stað, svona almennt. Við töluðum um það á síðasta blaðamannafundi hér að það væri margt mikilvægara í lífinu heldur en fótbolti, í samhengi við veikindi markmanns Nígeríu. Annað sem er mikilvægara en fótbolti er fjölskyldan okkar. Í gær var möguleiki á að hitta konur og börn, mæður og feður. Menn eiga að rækta sína fjölskyldu í lífinu. Ég veit ekki í hvaða samhengi þú ert að setja þetta,“ sagði Heimir.

„Þetta er ekkert nýtt hjá okkur. Við höfum alltaf opna daga, og allir dagar eru opnir hjá okkur. Ef að menn vilja gera eitthvað sjálfir í hálftíma þá mega þeir ráða hvað það er. Við vitum að þeir eru það miklir fagmenn að þeir hvíla sig og ef að þeir þurfa aðstoð frá læknum eða sjúkraþjálfurum þá nýta þeir daginn í það. Og ef að það er frítími þá mega þeir hitta fjölskyldu sína, hvort sem það er heima á Íslandi eða hérna í Rússlandi,“ sagði Heimir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert