Vonar að Króatar hagi sér eins og atvinnumenn

John Obi Mikel biðlar til Króata um að spila á …
John Obi Mikel biðlar til Króata um að spila á sínu sterkasta liði gegn Íslandi. AFP

John Obi Mikel, fyrirliði nígeríska landsliðsins í knattspyrnu er ekki hrifinn af þeirri hugmynd Króata að ætla hvíla menn í leiknum gegn Íslandi, 26. júní næstkomandi í Rostov. Króatar eru komnir áfram í sextán liða úrslit keppninnar en þeir eru í efsta sæti D-riðils með 6 stig eftir fyrstu tvær umferðir riðlakeppninnar. Nígería er í öðru sætinu með 3 stig og Ísland og Argentína reka lestina með eitt stig hvort lið. 

„Mér finnst persónulega að það eigi ekki að vera í boði að hvíla menn á svona stóru móti,“ sagði Mikel í kvöld. „Það ætti ekki að vera leyfilegt að hvíla menn og gefa þannig öðrum liðum betri möguleika á því að komast áfram. Króatar eiga að haga sér eins og atvinnumenn og spila á sínu besta liði. Þetta er of stórt svið til þess að leyfa sér svoleiðis hluti,“ sagði Mikel að loku.

Nígería og Argentína mætast í lokaleik sínum í D-riðlinum 26. júní en fari svo að Nígería vinni fara þeir áfram í sextán liða úrslitin. Jafntefli gæti einnig dugað Nígeríu til þess að komast í útsláttakeppnina, fari svo að Ísland tapi stigum gegn Króatíu. Ef Nígería tapar eða gerir jafntefli og Ísland vinnur þá er Ísland í bestu stöðunni til þess að tryggja sér sæti í útsláttakeppninni. Argentína þarf að vinna Nígeríu með tveimur mörkum eða meira til þess að eiga möguleika á því að fara áfram, fari svo að Ísland vinni Króata með einu marki en Argentína er með markatöluna mínus 3 á meðan Ísland er með markatöluna mínus 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert