Einn sigur í sex leikjum - Markatalan 11:2

Hörður Björgvin Magnússon fagnar marki sínu gegn Króötum í eina …
Hörður Björgvin Magnússon fagnar marki sínu gegn Króötum í eina sigurleik Íslands gegn Króatíu. mbl.is/Golli

Ísland og Króatía hafa mæst sex sinnum í leik A-landsliða karla í knattspyrnu en þjóðirnar eigast við í lokaumferð riðlakeppninnar á HM í Rostov á þriðjudaginn.

Í þessum sex leikjum hafa Króatar unnið fjórum sinnum, Íslendingar einu sinni og jafntefli hefur orðið niðurstaðan einu sinni. Markatalan í leikjunum er 11:2, Króötum í vil.

Ísland og Króatía mættust í umspili um sæti á HM 2014 árið 2013 þar sem liðin gerðu markalaust jafntefli í fyrri leiknum á Laugardalsvellinum en Króatar tryggðu sér farseðilinn á HM í Brasilíu með 2:0 sigri í seinni leiknum.

Ísland og Króatía voru í sama riðli í undakeppninni fyrir HM í Rússlandi. Króatar unnu fyrri leikinn 2:0 en í seinni leiknum kom fyrsti sigur Íslendinga á Króötum þar sem Hörður Björgvin Magnússon skoraði eina mark leiksins undir blálokin.

Þjóðirnar voru einnig í sama riðli fyrir HM 2006. Króatar unnu báða leikina. Þann fyrri á heimavelli 4:0 og þann síðari á Laugardalsvellinum 3:1 þar sem Eiður Smári Guðjohnsen skoraði mark Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert