Er ekki það langsótt

Hannes Þór Halldórsson aðalmarkvörður íslenska landsliðsins í knattspyrnu segir að tapið á móti Nígeríumönnum á HM í gær hafi verið mjög svekkjandi en hann er samt bjartsýnn á að Ísland komist í 16-liða úrslitin á heimsmeistaramótinu.

„Það var ekkert útilokað að við myndum tapa einum leik í þessum riðli. Við erum í dauðariðlinum á HM og þetta verður þá bara tapleikurinn okkar og við ætlum að vinna næsta leik,“ sagði Hannes Þór í samtali við mbl.is í Kabardinka í Rússlandi í morgun þar sem var úrhellisrigning.

Nú hefur þú góða yfirsýn yfir völlinn. Hvað fannst þér fara úrskeiðis hjá liðinu í seinni hálfleik?

„Mér fannst fyrri hálfleikurinn mjög fínn hjá okkur. Í seinni hálfleik náðu þeir þessu marki sem þeir máttu í rauninni ekki ná. Þetta mátti ekki fara út í það að við værum að elta þá, við værum orðnir þreyttir og værum að fara að elta þá. Það er það sem gerist og leikurinn spilast þar með upp í hendurnar á þeim.

Ef ég hefði til að mynda tekið þennan bolta og við kannski skorað í fyrri hálfleik þá hefði leikurinn þróast með öðrum hætti. Það er stutt á milli og þegar þú ert að spila á stærsta sviðinu þá þurfa hlutirnir að ganga upp eins og maður leggur þá upp. Það gerðist ekki í gær og við lendum í því að vera aðeins of gleiðir í seinni hálfleik og þeir fengu leikinn eins og þeir vildu hafa hann,“ sagði Hannes.

Fannst þér að þú hefðir getað komið í veg fyrir mörkin sem þú fékkst á þig?

„Þegar er verið að skjóta á þig af 6-7 metrum þá eru líkurnar aldrei með markverðinum að verja og maður þarf ákveðna heppni með sér. Ég geri það sem ég get í fyrra markinu og var mjög nálægt því að hann hitti mig. Í öðru markinu er hann sloppinn í gegn. Maður verður bara að búast við öllu og ég veit ekki hvað hann er að fara að gera. Hann var snöggur og komst framhjá mér.

Ég ætla ekkert að svekkja og það þýðir ekkert að væla yfir orðnum hlut. Nú horfum við bara til næsta verkefnis og ég er handviss um að það muni fara vel. Ég hef bullandi trú á þessu. Þetta er ekki það langsótt. Við þurfum að vinna okkar leik og svo þarf Argentína að vinna Nígeríu. Auðvitað hefðum við vilja hafa örlögin í okkar höndum en við höfum oft áður verið upp að vegg og ég hef trú á því að þetta fari vel á þriðjudaginn,“ sagði Hannes en allt viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér að ofan.

Hannes Þór Halldórsson á æfingunni í Kabardinka í morgun.
Hannes Þór Halldórsson á æfingunni í Kabardinka í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is