Frábær upplifun fyrir okkur öll

Guðni Bergsson og Gianni Infantino forseti FIFA ræða málin fyrir …
Guðni Bergsson og Gianni Infantino forseti FIFA ræða málin fyrir leik Íslands og Argentínu. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Guðni Bergsson formaður Knattspyrnusambands Íslands segir að það hafi verið ein allsherjar upplifun að vera á HM í Rússlandi með íslenska landsliðinu.

„Það eru forréttindi og mikil upplifun að vera hér á þessu móti með liðinu. Þetta er gríðarlega samstilltur, góður og skemmtilegur hópur, sem hefur náð frábærum árangri. Fyrir mig sem fyrrverandi landsliðsmann, fyrirliða og nú formann þá er auðvitað bara frábært að vera í kringum þetta lið og með því.

Nú gefur aðeins á bátinn, það var þó bara einn leikur sem tapaðist og það vita allir, og allir tala á þeim nótum að þetta sé búið og gert. Nú er það næsti leikur og næstu þrjú stig í boði sem við ætlum auðvitað að vinna," sagði Guðni þegar mbl.is ræddi við hann í rússneska strandbænum Kabardinka við Svartahaf í dag.

Ánægjulegt að sjá þróunina

Hefurðu horft til baka og velt því fyrir þér hvernig landsliðið okkar á árum áður sem þú spilaðir með hefði spjarað sig í svona lokakeppni?

„Ja, ég hef nú ekki gert svo mikið af því. Það er fyrst og fremst búið að vera ánægjulegt að sjá þessa þróun sem hefur orðið frá því við vorum að spila, hversu jákvæð hún er, og hvað þetta er í raun og veru vel útfært hjá okkur, allur undirbúningur, þjálfun, skipulag, einbeiting, og allt það sem við gerum. Það er gaman að sjá liðið á þeim stað sem það er í dag.

Ég hef engan veginn verið að dvelja við það sem hefði getað gerst ef við hefðum haft allt þetta á sínum tíma. Svona er þróunin og ánægjulegt hve hún hefur orðið gríðarlega jákvæð á undanförnum árum og ég er því bara fyrst og fremst að njóta þess að vera hérna," sagði Guðni.

Guðni Bergsson formaður KSÍ á æfingasvæði íslenska liðsins í Kabardinka …
Guðni Bergsson formaður KSÍ á æfingasvæði íslenska liðsins í Kabardinka í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Getum bara einbeitt okkur að sigri

Hverja meturðu möguleika liðsins fyrir lokaumferð riðlakeppninnar eftir ósigurinn gegn Nígeríu?

„Þetta er dálítil fínstilling vegna markatölu og svoleiðis. Við verðum auðvitað að vinna leikinn, það er númer eitt. Hvort 1:0 dugar, eða hvort við þurfum 2:0 getum við ekkert sagt um. Eða hvort sigur dugi. Það eina sem við getum einbeitt okkur að er að taka eitt skref í einu, ná að leika vel, og að það skili okkur sigri. Svo getum við vel hinu fyrir okkur. Við viljum enda riðilinn með sigri og svo verður að vona það besta að það dugi til að komast í sextán liða úrslitin."

Hver er þín upplifun af HM, hefur mótið staðist þínar væntingar?

„Ég velti því ekki of mikið fyrir mér fyrirfram. Þetta er gríðarlega stórt í sniðum eins og við vitum. Öll þessi lið, umgjörð, öryggisgæsla, aðdáendur, fjölmiðlaumfjöllun og fleira. Þetta er auðvitað á gríðarlega stórum skala allt saman.

Síðan komum við til borgar eins og Volgograd sem er gamla Stalíngrad og förum að minnismerki um stríðið. Þar áttar maður sig á því hvernig þetta er allt sett í samhengi við sögu Rússlands, við líf fólksins hérna og þá atburði sem þetta samfélag þurfti að takast á við í seinni heimsstyrjöldinni. Þetta fær mann að hugsa um lífið í stærri mynd - hvað samfélagið hér stendur fyrir og hefur þurft að upplifa í gegnum aldirnar."

Rússarnir hafa komið þægilega á óvart

„En þetta heimsmeistaramót hefur verið ein allsherjar upplifun. Framkvæmd mótsins eins og hún snýr að okkur hefur gengið mjög vel. Rússarnir hafa tekið okkur gríðarlega vel. Líka allt  það sem snýr að undirbúningi okkar hjá KSÍ. Það eru margir sem koma að þessu öllu.

Ég get alveg tekið undir að Rússarnir hafi komið þægilega á óvart. Þeir leggja mikinn metnað í þetta, eru allir af vilja gerðir til að láta hlutina ganga upp. Þeir hafa gert það hingað til og mótið hefur verið að ég held nokkuð skemmtilegt. Hvað okkur snertir hefur verið frábært að upplifa loksins heimsmeistaramót með íslensku landsliði. Það hefur verið frábær upplifun fyrir okkur öll," sagði Guðni Bergsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert