Hefðum allir skrifað upp á það

„Menn voru eðlilega svekktir eftir leikinn. Við viljum vinna alla leiki og það er bara eðlilegt í okkar eðli,“ sagði Helgi Kolviðsson aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins í knattspyrnu við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í Kabardinka en Ísland tapaði fyrir Nígeríu 2:0 í öðrum leik sínum á HM í knattspyrnu á Volgrad Arena í gær.

„Ég horfði á leikinn í gær eins og allir þjálfararnir. Við byrjuðum leikinn vel þar sem Gylfi fékk skotfæri úr aukaspyrnu og fengum færi og gáfum tóninn í fyrri hálfleik. Við vorum með leikinn í höndunum og áttum betri og fleiri færi heldur en þeir. Við vorum ánægðir með fyrri hálfleikinn.

Í seinni hálfleik gerðu þeir breytingar. Við sáum í uppstillingu hjá þeim að þeir voru með þriggja manna vörn sem voru hlutir sem við bjuggumst alveg við. Við vitum að þeir eru fljótir og þeir settu inná ennþá fljótari framherja til að taka á móti okkur. Þeir settu strax pressu á okkur í seinni hálfleik og eftir þrjár mínútur fengum við á okkur mark eftir að hafa átt innkast á þeirra vallarhelmingi. Það mark skipti sköpum í leiknum,“ sagði Helgi.

„Hefðum við komist í 1:0 í fyrri hálfleik þá hefði leikurinn örugglega þróast öðruvísi en þetta spilaðist upp í hendurnar fyrir þá. Þeir vilja nýta svæðin, eru gríðarlega fljótir og snöggir á 60 og 80 metrunum. Þetta er vopn þeirra. Hefðum við vitað það fyrirfram að við værum að fara í síðasta leikinn í lokakeppni HM og eiga möguleika á að komast áfram þá hefðum við allir skrifað upp á það.

Nú er allt eða ekkert í næsta leik. Það er ekkert nýtt fyrir okkur. Við höfum oft verið með bakkið upp að vegg áður. Það eru margir að tala um að Króatarnir stilli ekki upp sínu sterkasta liði í leiknum á móti okkur en þegar maður skoðar bara hópinn hjá þeim þá eru þeir sem hafa verið fyrir utan byrjunarliðið ekkert síðri. Það skiptir engu máli hver þeirra kemur inn. Þeir eru með gríðarlega sterkan 22 manna hóp og það er alveg sama hvort þetta er A eða B lið hjá þeim. Gæðin eru þau sömu. Leikstíll þeirra breytist ekkert,“ sagði Helgi.

Spurður hvort möguleiki sé á að Jóhann Berg Guðmundsson geti spilað gegn Króötum á þriðjudaginn sagði Helgi;

„Hann var að hlaupa í gær og fann ekki fyrir neinu. Núna bætum við álagið á hann og sjáum til hvort það dugar fram á þriðjudaginn. Þetta lítur bara mjög vel út eins og er,“ sagði Helgi en horfa má á allt viðtalið við Helga í spilaranum hér að ofan.

Helgi Kolviðsson aðstoðarþjálfari landsliðsins í Kabardinka í morgun.
Helgi Kolviðsson aðstoðarþjálfari landsliðsins í Kabardinka í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert