Talað um Lionel Musa í Argentínu

Ahmed Musa skorar seinna mark sitt gegn Íslandi.
Ahmed Musa skorar seinna mark sitt gegn Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftir mörkin tvö og frábæra frammistöðu sína fyrir Nígeríu í 2:0-sigrinum á Íslandi á HM í knattspyrnu er Ahmed Musa orðinn eins konar þjóðhetja í tveimur löndum.

Musa tryggði ekki bara sinni þjóð frábæran sigur og möguleika á að komast í 16-liða úrslit mótsins, heldur jók hann vonir Argentínumanna sem hafa nú einnig örlög sín í eigin höndum.

Musa var valinn maður leiksins í gærkvöld og sat fyrir svörum á blaðamannafundi eftir leik. Þar benti blaðamaður frá Argentínu honum á að nú talaði fólk í Argentínu um „Lionel Musa“, og vísaði þar til bæði Musa og sjálfs Lionels Messi. Sá nígeríski var spurður hvort þetta hefði einhver áhrif á hann, fyrir leikinn við Argentínu á þriðjudaginn, en gaf nú lítið fyrir það þó að hann virtist vissulega hafa gaman af því að vera orðinn þjóðhetja í Argentínu:

„Ég man vel að ég skoraði tvö mörk gegn Argentínu, þegar Messi var í liðinu. Ég skoraði líka tvö mörk með Leicester gegn Barcelona [félagsliði Messis]. Það getur því allt gerst. Kannski skora ég aftur tvö mörk?“ sagði Musa.

„Argentína er ekkert svo erfitt lið í mínum huga. Ef að ég skora gegn Argentínu þá gerist það bara. Ég þarf að vinna af fullri hörku. Við verðum að vinna leikinn eða ná jafntefli, og eftir 90 mínútur þá vitum við hvort við förum heim eða ekki ,“ sagði Musa. Hann er leikmaður Leicester en var lánaður til CSKA Moskvu seinni hluta síðustu leiktíðar og sagði við fréttamenn í kvöld að hann væri opinn fyrir því að vera áfram hjá rússneska félaginu, en myndi taka ákvörðun um framtíð sína á næstu vikum.

Ahmed Musa skorar seinna mark sitt gegn Íslandi.
Ahmed Musa skorar seinna mark sitt gegn Íslandi. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert