Upplifunin betri eftir annað áhorf

Heimir Hallgrímsson og Helgi Kolviðsson búa sig undir spurningar fjölmiðlamanna ...
Heimir Hallgrímsson og Helgi Kolviðsson búa sig undir spurningar fjölmiðlamanna fyrir æfinguna í Kabardinka í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari í knattspyrnu sagði við mbl.is fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Kabardinka í morgun að hann væri búinn að horfa tvívegis á leik Íslands í Nígeríu í nótt og morgun.

„Þetta er eins og eftir alla tapleiki. Við erum ekkert upprifnir en eftir að hafa horft nánast tvisvar á leikinn er upplifunin betri núna en á vellinum í gær.

Við gáfum ekki mikil færi á okkur í fyrri hálfleik, þeir áttu ekki skot á mark, svo kemur þetta mark frá þeim í byrjun seinni hálfleiks sem var eins og þruma úr heiðskíru lofti. Þetta var gríðarlega vel gert frábær afgreiðsla eftir heimsklassa skyndisókn.

Við fengum reyndar smá viðvörun áður, fengum skyndisókn á okkur eftir upphafsspyrnuna í seinni hálfleik. En það er þetta sem gerir þetta nígeríska lið eins gott og það er, hvað það býr yfir miklum hraða og einstaklingshæfileikum," sagði Heimir og lagði áherslu á hve vel þeir hefðu nýtt hraðann.

Breyttu leikskipulaginu og svo breyttist leikmyndin

„Já, þeir spila upp á það, þeir breyttu aðeins leikskipulaginu á móti okkur og settu tvo fljóta menn inn. Við vissum að þeir væru góðir í þessum atriðum. Þeir náðu að refsa okkur uppúr okkar innkasti. Þá breyttist bara leikmyndin. Þeir gátu fallið aftar á völlinn, látið okkur koma framar og beitt skyndisóknum. Það er þeirra styrkleiki, þeim líður vel í þeirri stöðu, svona svipað eins og okkur líður vel að verjast og sækja hratt," sagði Heimir.

„Uppúr annarri skyndisókn refsuðu þeir okkur. Við erum vanir því hingað til þegar við fáum á okkur mark að vera grimmir næstu mínútur á eftir. Það hefur tekist í ansi mörg skipti að jafna fljótt eftir mark, en því miður þá gerðist það ekki í gær og þannig er nú bara fótboltinn, það gengur ekki allt upp í lífinu sem maður ætlar sér," sagði Heimir.

Stuttur tími er til stefnu, enda er leikurinn við Króata strax á þriðjudagskvöld. Undirbúningur fyrir hann er þegar hafinn af fullum krafti, að sögn Heimis.

Heimir Hallgrímsson leyfði sér hiklaust að brosa þegar hann kom ...
Heimir Hallgrímsson leyfði sér hiklaust að brosa þegar hann kom til móts við fjölmiðlamenn í morgun, þrátt fyrir slæm úrslit. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fókusinn okkar er óbreyttur

„Já, það er ekki tími í annað. Allir þessir þrír leikir verða mjög ólíkir eins og við sögðum fyrir mótið. Þessi þrjú lið eru mjög ólík. Málið í gær var að fá ekki á sig mark, því miður gátum við ekki framkvæmt það. Stundum er þetta þannig.

Fókusinn okkar er óbreyttur og það skiptir engu máli hvort það er einn leikmaður sem hvílir hjá Króötum, fimm eða sjö. Það eru leikmenn frá bestu liðum heims sem koma inn í staðinn og fókusinn á fundinum í kvöld verður sá að við stillum upp besta liði Króata og hvernig það spilar, og svo öllum hinum. Þá sjá menn hverjir koma í staðinn.

Þetta skiptir engu máli fyrir okkur, við ætlum ekki að velta okkur upp úr þeirri umræðu, hver spilar og hver ekki. Króatía verður alltaf erfiður andstæðingur, sama hver spilar. Ég hefði frekar viljað fá þeirra sterkasta lið þar sem leikmenn væru að hugsa um að meiðast ekki, en að fá inn hina sem vilja sýna sig og sanna og stimpla sig innfyrir 16- og 8-liða úrslit. Þetta verður kannski bara erfiðara, ferskari fætur og einbeittari leikmenn," sagði Heimir.

Heimir Hallgrímsson með stuttan fund úti á velli í upphafi ...
Heimir Hallgrímsson með stuttan fund úti á velli í upphafi æfingarinnar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erfitt að stýra fótboltaleik, hvað þá að hlaupa

Leikið var í 32 stiga hita í Volgograd í gær og búist er við svipuðum aðstæðum í Rostov á þriðjudag en þá verður reyndar spilað síðar um kvöldið, eða klukkan 21 að staðartíma.

„Þetta voru auðvitað erfiðar aðstæður í Volgograd og ég held að það hafi meira að segja verið erfitt fyrir áhorfendur að vera á vellinum. Ég fann það bara á sjálfum mér, ég ekki vanur að vera að stýra fótboltaleik í 30 stiga hita, hvað þá að hlaupa. Við erum búnir að vera hér í Kabardinka, það er ein ástæða þess að við völdum þennan stað því við vildum aðlagast þessum aðstæðum. Jú, kannski eru Nígeríumenn vanari þessu en við, eðlilega, en mér fannst menn standast það ágætlega," sagði Heimir á meðan regnið buldi á tjaldskýlinu þar sem viðtölin voru tekin og leikmenn landsliðsins hituðu upp í ausandi rigningunni í Kabardinka.

„Þetta er yndislegt, við þurfum allir á smá rigningu að halda og grasið líka," sagði Eyjamaðurinn brosandi áður en hann sneri sér að því að stýra æfingunni í morgun.

mbl.is