Vill fá að ræða við leikmenn landsliðsins

Diego Maradona í stúkunni á leik Argentínu og Króatíu.
Diego Maradona í stúkunni á leik Argentínu og Króatíu. AFP

Argentínska goðsögnin Diego Maradona hefur óskað eftir því að fá að mæta á æfingasvæðið hjá sínum mönnum í argentínska landsliðinu til að hvetja þá til dáða fyrir leikinn gegn Nígeríumönnum á HM sem fram fer á þriðjudaginn.

Argentínumenn halda enn í vonina um að komast áfram í 16-liða úrslitin en fyrir lokaumferðina stendur baráttan á milli Nígeríu, Íslands og Argentínu um að fylgja Króatíu áfram í 16-liða úrslitin.

Mikið hefur gengið á í herbúðum Argentínumanna síðustu dagana en tvöfaldir heimsmeistarar hafa valdið gríðarlegum vonbrigðum á HM. Þeir byrjuðu á því að gera 1:1 jafntefli við Íslendinga og steinlágu svo fyrir Króötum 3:0.

Jorge Sampaoli þjálfari Argentínu hefur legið undir mikilli gagnrýni og hefur Maradona tekið þátt í þeirri gagnrýni sem og einhverjir leikmenn, til að mynda Sergio Agüero.

„Ég vil fá að ræða við leikmenn og gera þeim það ljóst hvað þýðir að klæðast landsliðstreyjunni,“ segir Maradona sem hefur mætt á báða leiki argentínska landsliðsins á HM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert