Markmannsmistök í sviðsljósinu í jafntefli

Senegal og Japan gerðu 2:2-jafntefli í fjörugum leik í annarri umferð H-riðils á heimsmeistaramótinu í Rússlandi í Jekaterínborg í dag.

Sadio Mané kom Senegal yfir strax á 11. mínútu eftir mistök Eiji Kawashima í marki Japana. Youssouf Sabaly átti skot sem Kawashima sló beint í Mané og af honum fór boltinn í netið. Afar vandræðalegt en staðan orðin 1:0.

Japönum tókst þó að svara eftir rúmlega hálftíma leik þegar Takashi Inui fékk sendingu frá Yuto Nagatomo áður en hann sneri boltann snyrtilega í fjærhornið, fram hjá Khadim N'Diaye í marki Senegala.

Sabaly átti þó aftur eftir að eiga stóran þátt í marki þegar föst sending hans þvert fyrir markið barst til táningsins Moussa Wague á fjærstönginni. Sá þrumaði boltanum af stuttu færi upp í þaknetið. Japanar voru þó ekki dauðir úr öllum æðum og kreistu fram jafntefli undir lok leiks þegar kempan Keisuke Honda skoraði eftir afleit mistök N'Diaye í marki Senegal.

Bæði lið eru því með fjögur stig eftir tvo leiki. Pólland og Kólumbía eru án stiga en mætast í síðari leik umferðarinnar í kvöld.

Keisuke Honda fagnar jöfnunarmarki sínu í dag.
Keisuke Honda fagnar jöfnunarmarki sínu í dag. AFP
Sadio Mané (nr. 10) fagnar fyrsta marki leiksins.
Sadio Mané (nr. 10) fagnar fyrsta marki leiksins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert