Telja möguleika Íslands 7 prósent

Ísland mætir Króatíu á þriðjudagskvöldið og Argentína mætir Nígeríu.
Ísland mætir Króatíu á þriðjudagskvöldið og Argentína mætir Nígeríu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Möguleikar Íslands á að komast í sextán liða úrslit heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu í Rússlandi eru aðeins 7 prósent, samkvæmt útreikningum og mati FiveThirtyEight sem vefurinn Business Insider fjallar um.

Þar er reiknuð út staða allra liðanna á HM eftir þá leiki sem þau hafa spilað og tekið mið af þeim leikjum sem þau eiga eftir.

Staðan í D-riðlinum er metin þannig að Króatar eru að sjálfsögðu í langbestu stöðunni, þegar komnir áfram og þeir eru taldir 99 prósent öruggir um að vinna riðilinn.

Argentína er talin með næstbestu stöðuna, þrátt fyrir að liðið sitji í neðsta sætinu fyrir lokaumferðina. Möguleikarnir á að Argentína nái 2. sæti riðilsins og fari þar með áfram eru metnir 48 prósent.

Nígería kemur þar skammt undan en Nígeríumenn eru sem stendur í öðru sæti með 3 stig og eiga að mæta Argentínu á þriðjudagskvöldið. Möguleikarnir á öðru sætinu eru metnir 45 prósent hjá Nígeríu.

Ísland er hinsvegar sett í neðsta sætið í þessum líkindareikningi með aðeins 7 prósent möguleika á að komast áfram. Þá eru aðeins taldar 2 prósent líkur á að Ísland komist í 8-liða úrslit keppninnar.

Spánn og Brasilía eru metin sigurstranglegustu liðin í Rússlandi með 18 prósent möguleika hvor þjóð á heimsmeistaratitlinum. Þar á eftir koma Þjóðverjar með 11 prósent en síðan Frakkar, Belgar og Englendingar með 8 prósent möguleika hver þjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert