„Þetta er ógnvænlegt lið“

Kári Árnason var annar fulltrúa íslenska landsliðsins á blaðamannafundi í …
Kári Árnason var annar fulltrúa íslenska landsliðsins á blaðamannafundi í Kabardinka í dag. mbl.is/Eggert

„Þetta er ógnvænlegt lið þegar maður skoðar þá á pappírum,“ segir Kári Árnason, landsliðsmiðvörður í knattspyrnu, um króatíska liðið sem Ísland mætir á þriðjudag í lokaumferð D-riðils HM í Rússlandi.

Kári var meðal annars spurður að því á blaðamannafundi í dag hvort að hann teldi að Króatía gæti orðið heimsmeistari, en liðið hefur unnið sannfærandi sigra gegn Nígeríu og Argentínu hingað til og er komið áfram í 16-liða úrslit. „Við vorum að skoða þá í gær og þetta eru ekkert venjulegar stjörnur í þessu liði, og þeir geta unnið hverja sem er á góðum degi. Ég hef ekkert spáð í þeirra möguleika, en þeir eru alveg eitt af þeim liðum sem koma til greina,“ sagði Kári. Þetta verður í fimmta sinn frá árinu 2013 sem Ísland mætir Króatíu.

Unnið þá áður og höfum fulla trú á sigri

„Þetta er stórkostlegt lið, eins og sjá má af ótrúlegu byrjunarliði þeirra. Það er talað um að þeir muni hvíla leikmenn en það hefur ekki mikil áhrif á liðið því þeir hafa svo mikil gæði á bekknum. Það ætti því ekki að hafa nein áhrif á liðið þeirra, en kannski einhver smá á einstaklingsgæði. Við þurfum alltaf að eiga mjög góðan leik til að komast áfram,“ sagði Kári, en hann hefur fulla trú á að það takist að leggja Króatíu að velli:

„Við höfum gert það áður svo við höfum fulla trú á því. En Króatar eru það sterkt lið að þeir gætu unnið þetta mót. Þeir eru með gríðarlega breiðan hóp og litlu máli skiptir hverjir byrja þennan leik. En við höfum unnið þá áður og við ætlum okkur að vinna þá aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert