De Gea ekki varið skot á HM

David De Gea á ennþá eftir að verja skot á …
David De Gea á ennþá eftir að verja skot á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. AFP

David de Gea, markmaður spænska landsliðsins í knattspyrnu, hefur ekki ennþá varið skot sem hefur komið á markið á heimsmeistaramótinu í Rússlandi. De Gea er á mála hjá enska knattspyrnufélaginu Manchester United en hann er af mörgum talinn besti markmaður heims í dag.

De Gea hefur byrjað báða leiki Spánverja á heimsmeistaramótinu til þessa en liðið gerði 3:3 jafntefli við Portúgal í fyrsta leik sínum á mótinu. Cristiano Ronaldo, fyrirliði Portúgals skoraði öll mörk liðsins í leiknum en öll þrjú skot hans fóru í markið án þess að De Gea kom vörnum við.

Spánverjar unnu svo 1:0 sigur á Íran í annarri umferð riðlakeppninnar en alls áttu Íranir fimm marktilraunir í leiknum en engin þeirra fór á markið. De Gea verður að öllum líkindum í byrjunarliðinu þegar Spánn mætir Marokkó í lokaleik sínum í riðlakeppninni en sigur eða jafntefli dugar Spánverjum til þess að fara áfram í sextán liða úrslit keppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert