Líklegt byrjunarlið gegn Króötum

Byrjunarlið Íslands í leiknum gegn Argentínu.
Byrjunarlið Íslands í leiknum gegn Argentínu. AFP

Góðar líkur eru á að Jóhann Berg Guðmundsson geti spilað gegn Króötum þegar Íslendingar og Króatar mætast í lokaumferð D-riðilsins á HM á Rostov Arena leikvanginum í Rostov á morgun.

Jóhann Berg meiddist í upphafi síðari hálfleiksins í jafnteflisleiknum á móti Argentínu og hans var sárt saknað í tapleiknum gegn Nígeríumönnum.

Líklegt er að Heimir Hallgrímsson tefli fram sama byrjunarliði og í leiknum á móti Argentínu og geri þar með tvær breytingar á liðinu frá leiknum við Nígeríu. Jóhann Berg og Emil Hallfreðsson koma væntanlega inn í liðið fyrir þá Rúrik Gíslason og Jón Daða Böðvarsson.

Líklegt byrjunarlið (4:5:1):

Hannes Þór Halldórsson - Birkir Már Sævarsson, Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson, Hörður Björgvin Magnússon - Jóhann Berg Guðmundsson, Aron Einar Gunnarsson, Emil Hallfreðsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Birkir Bjarnason - Alfreð Finnbogason.

Mögulegt er að Ari Freyr Skúlason komi inn í liðið fyrir Hörð Björgvin og þá gætu annað hvort Jón Daði Böðvarsson eða Björn Bergmann Sigurðarson spilað í fremstu víglínu á kostnað Alfreðs.

Leikurinn við Króata hefst á morgun klukkan 18 að íslenskum tíma og þá ræðst það hvort Ísland komist í 16-liða úrslitin eða ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert