Met fellur á HM í dag

Essam El-Hadary.
Essam El-Hadary. AFP

Þrátt fyrir leikur Egypta og Sádi-Araba á HM sé þýðingarlaus þar sem hvorugt liðanna á möguleika á að komast í 16-liða úrslitin fellur met í sögu heimsmeistarakeppni karla í knattspyrnu.

Markvörðurinn Essam El-Hadary verður elsti leikmaðurinn til að spila í úrslitakeppni HM en hann er 45 ára gamall, 5 mánaða og 11 daga gamall og er í byrjunarliðinu gegn Sádi-Aröbum.

Sá elsti til að spila á HM er Kólumbíumaðurinn Faryd Mondragon en hann var 43 ára og þriggja daga gamall þegar hann varði mark Kólumbíu gegn Japan á HM í Brasilíu fyrir fjórum árum.

„Þjálfarinn ákveður valið á liðinu en auðvitað vil ég spila eins og allir leikmenn og slá met,“ sagði El-Hadary í viðtali við netmiðilinn Goal.com í gær.

El-Hadary lék fyrst með landsliðinu fyrir 22 árum en þá var einn liðsfélaga hans á HM ekki fæddur. Markvörðurinn er þriðji leikjahæstur í sögu egypska landsliðsins og á 154 landsleiki að baki. 

Hann lék eitt tímabil með Sion í Sviss en hefur annars lengst af leikið í heimalandi sínu, sem og eitt tímabil í Súdan, en frá 2017 hefur El-Hadary spilað með sádiarabísku félagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert