Þrautreyndur Spánverji dæmir leikinn

Antonio Mateu gefur Pione Sisto leikmanni Dana gula spjaldið.
Antonio Mateu gefur Pione Sisto leikmanni Dana gula spjaldið. AFP

Spánverjinn Antonio Mateu dæmir leik Íslendinga og Króata sem eigast við í lokaumferð D-riðilsins á HM í knattspyrnu á Rostov Arena á morgun.

Mateu er 41 árs gamall þrautreyndur dómari sem hefur dæmt marga leiki í Meistaradeild Evrópu og dæmdi til að mynda leik Manchester City og Liverpool í undanúrslitunum í síðasta mánuði. Hann hefur dæmt einn leik á HM en það var viðureign Dana og Ástrala. Hann gaf tvö gul spjöld í þeim leik og dæmdi vítaspyrnu á Dani eftir að hafa skoðað atvikið af myndbandi.

Mateu dæmdi fimm leiki í undankeppni HM og meðal annars umspilsleik Ítala og Svía sem endaði með markalausu jafntefli. Hann var spjaldaglaður í þeim leik og lyfti gula spjaldinu níu sinnum á loft.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert