Göngum stoltir frá borði

Sverrir Ingi getur ekki leynt vonbrigðum sínum eftir leikinn.
Sverrir Ingi getur ekki leynt vonbrigðum sínum eftir leikinn. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Já vissulega voru þetta þung spor út af vellinum en ég er ótrúlega stoltur af liðinu. Þetta var besti leikur okkar í keppninni en því miður dugði það ekki til,“ sagði Sverrir Ingi Ingason miðvörður íslenska landsliðsins í knattspyrnu eftir tapið gegn Króötum í kvöld sem gerði það af verkum að Ísland er úr leik á HM.

„Við fengum urmul að færum til að þess að skora fleiri mörk og það er fúlt að þurfa falla úr keppni eftir svona góða frammistöðu liðsins. Við gáfum gjörsamlega allt í þetta en það var leiðinlegt að þetta skildi ekki detta með okkur í kvöld,“ sagði Sverrir Ingi, sem tók stöðu Kára Árnasonar í hjarta varnarinnar og stóð sig vel.

„En við göngum stoltir frá borði. Við ætluðum okkur allir að komast áfram. Við vorum ansi nálægt því en svona er bara fótboltinn. Heimir sagði við okkur varamennina í Nígeríuleiknum að hann gæti þurft ferskar fætur í þennan leik.

Kári og Raggi hafa verið að spila frábærlega en nú fékk ég tækifæri. Við erum með breiðan og góðan hóp. Við vissum í hálfleik að Argentína væri marki yfir en við vissum ekki að Nígería hefði jafnað. Við reyndum allt sem við gátum til að ná inn öðru marki. Við vorum helvíti nálægt því og sjálfur hefði átt að skora,“ sagði Sverrir Ingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert