Það skemmtilegasta sem við höfum upplifað

Gylfi Þór Sigurðsson var svekktur í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson var svekktur í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum vitaskuld mjög svekktir því við vorum gríðarlega nálægt þessu í stöðunni 1:1 og við vissum að Argentína myndi vinna sinn leik,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson við mbl.is eftir ósigurinn gegn Króötum í lokaumferð riðlakeppninnar á HM í knattspyrnu í kvöld.

„Þrátt fyrir að við séum núna úr leik þá getum við verið mjög stoltir. Við fengum fullt af færum í kvöld til að skora mörk og við gerðum það líka í í leiknum á móti Argentínu. Þegar þú ert kominn á þetta stóra svið er þér refsað fyrir að nýta ekki færin þín en þetta sýnir líka að við erum ekkert langt frá þessu. Ef við hefðum unnið Nígeríu þá hefðum við verið í toppstöðu,“ sagði Gylfi Þór, sem skoraði mark Íslands úr vítaspyrnu sem hann fékk sjálfur.

Þú varst fljótur að ná í boltann og fara á punktinn?

„Það gerði þetta svolítið erfitt að hafa klikkað síðast í leiknum á móti Nígeríu en það var gott að komast yfir þetta að ná að skora. Auðvitað yrði það skemmtilegt að geta farið með íslenska landsliðinu á fleiri stórmót. Við erum allir sammála um að þetta er það skemmtilegasta sem við höfum upplifað að fara fyrst á EM og svo á HM. Það er gaman að geta hafa skemmt þjóðinni með þessum stórmótum og þá kannski meira á EM þar sem okkur tókst að komast áfram. Nú verður stefnan bara tekin á að fara á næsta stórmót,“ sagði Gylfi Þór.

„Við erum búnir að fara á tvö stórmót í röð og það mega ekki verða miklar breytingar. Stemningin í þessum hópi hefur verið frábær frá því að Lars og Heimir tóku við okkur. Ef það kemur nýr þjálfari þá vona ég að hann breyti ekki miklu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert