„Ég er stoltur af strákunum“

Strákarnir eru úr leik á HM í Rússlandi eftir tap ...
Strákarnir eru úr leik á HM í Rússlandi eftir tap gegn Króatíu í gær. mbl.is/Eggert

„Ég er stoltur af strákunum og hvernig þeir stóðu sig, sérstaklega í þessum leik. Við vissum að þetta yrði erfiður leikur en við ákváðum að sækja. Við fengum fullt af færum og við getum verið stoltir af frammistöðunni,“ sagði Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, eftir að liðið féll úr leik á HM í knattspyrnu eftir 2:1 tap fyrir Króatíu í lokaleik riðlakeppninnar.

„Það er erfitt að taka þessu, sérstaklega því úrslitin voru okkur í hag ef við hefðum náð að lauma inn einu í viðbót. Svona er fótboltinn stundum, við getum verið stoltir, sett kassann út og borið höfuðið hátt,“ sagði Aron Einar.

„Þrátt fyrir að við séum núna úr leik þá getum við verið mjög stoltir,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson. „Við fengum fullt af færum í kvöld [í gærkvöld] til að skora mörk og við gerðum það líka í leiknum á móti Argentínu. Þegar þú ert kominn á þetta stóra svið er þér refsað fyrir að nýta ekki færin þín en þetta sýnir líka að við erum ekkert langt frá þessu. Ef við hefðum unnið Nígeríu þá hefðum við verið í toppstöðu,“ sagði Gylfi.

Sjá grein­ina í heild sinni og um­fjöll­un um HM í Rússlandi í íþrótta­blaði Morg­un­blaðsins í dag.

Bloggað um fréttina