Rússland hafði betur í vítaspyrnukeppni

Artem Dzjuba fagnar marki sínu fyrir Rússland í dag.
Artem Dzjuba fagnar marki sínu fyrir Rússland í dag. AFP

Rússland er komið í 8-liða úrslit heimsmeistaramótsins í Rússlandi eftir sigur á Spáni eftir vítaspyrnukeppni en staðan eftir venjulegan leiktíma var 1:1. Leikið var í Moskvu en Rússar mæta nú annaðhvort Króatíu eða Danmörku sem mætast í kvöld.

Það kom ekki ýkja mikið á óvart að Spánverjar hafi haldið boltanum meira í fyrri hálfleiknum. Þeir komust yfir á 12. mínútu eftir fast leikatriði, aukaspyrnu við hlið teigsins, sem beint var að Sergio Ramos. Þessi umdeildi varnarmaður Real Madrid er sterkari en flestir í návígi og hafði betur gegn hinum 39 ára gamla Sergei Ignashevitsj sem setti knöttin í eigið net, 1:0.

Spánverjar héldu boltanum áfram meira eftir markið án þess þó að vilja mikið ógna marki Rússa. Jöfnunarmark Rússa kom nokkuð gegn gangi leiksins en liðið virtist alls ekki vera líklegt að jafna metin er markið kom. Það var Artem Dzjuba sem skoraði markið örugglega úr vítaspyrnu, eftir að boltinn fór í hönd Gerard Piqué eftir hornspyrnu, 1:1, og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Í síðari hálfleik virtist þó allur vindur úr seglum Spánverja, sem héldu boltanum vissulega vel en ógnuðu lítið. Besta færið kom undir lok venjulegs leiktíma þegar Igor Akinfeev varði frábærlega frá Andrés Iniesta en fleira markvert gerðist ekki og þurfti að grípa til framlengingar.

Það var enn fátt um fína drætti þar og voru úrslit leiksins því að lokum ráðin í vítaspyrnukeppni. Þar reyndist Igor Akinfeev hetjan er hann varði tvær spænskar vítaspyrnur, fyrst frá Koke og að lokum frá Iago Aspas, við trylltan fögnuð heimamanna. Þeir unnu 4:3 og þar með 5:4 samanlagt.

Sergio Ramos fagnar marki Spánverja í dag.
Sergio Ramos fagnar marki Spánverja í dag. AFP
Spánn 4:5 Rússland opna loka
120. mín. Leik lokið
mbl.is

Bloggað um fréttina