Tveir leikir á HM í dag

Leikið er á hinum glæsilega Luzhniki Stadium í Moskvu í ...
Leikið er á hinum glæsilega Luzhniki Stadium í Moskvu í dag þegar Spánn og Rússland eigast við. AFP

Tveir leikir fara fram í sextán liða úrslitum heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu í Rússlandi í dag og að þeim loknum verða þau hálfnuð.

Spánverjar mæta gestgjöfunum, Rússum, á Luzhniki-leikvanginum í Moskvu klukkan 14.00. Spánn vann B-riðilinn eftir gríðarlega tvísýna baráttu við Portúgal, Íran og Marokkó og náði efsta sætinu á markatölu eftir einn sigur og tvö jafntefli.

Rússar urðu í öðru sæti í A-riðli með 6 stig þar sem þeir unnu Sádi-Arabíu og Egyptaland mjög örugglega en töpuðu fyrir Úrúgvæ.

Króatar og Danir mætast síðan í Nizhnij Novgorod klukkan 18. Króatar unnu D-riðilinn, riðil Íslands, með fullu húsi stiga og Danir fóru taplausir í gegnum C-riðilinn í öðru sæti eftir sigur á Perú og jafntefli við Ástralíu og Frakkland.

mbl.is