Hádramatískur belgískur sigur

Belgía tryggði sér sæti í átta liða úrslitum á HM í Rússlandi með mögnuðum 3:2-sigri á Japan í Rostov við Don í kvöld. Japan komst í 2:0, en Belgar neituðu að gefast upp og Nacer Chadli skoraði sigurmarkið á síðustu mínútu uppbótartímans.

Staðan var markalaus í hálfleik en það tók Japana aðeins þrjár mínútur að komast yfir í seinni hálfleik með marki Genki Haraguchi eftir glæsilega skyndisókn. Aðeins fjórum mínútum síðar bætti Takashi Inui við öðru marki fyrir Japan og allt benti til þess að stjörnum prýtt lið Belga væri úr leik á HM. 

Á 65. mínútu gerði Roberto Martínez, þjálfari Belga, tvöfalda breytingu er hann setti Marouane Fellaini og Nacer Chadli inn á og átti það heldur betur eftir að borga sig. 

Fimm mínútum síðar minnkaði Jan Vertonghen muninn með ótrúlegum skalla, úr þröngu færi, lengst utan úr teig. Á 74. mínútu var Marouane Fellaini búinn að jafna með öðrum skalla, nú af stuttu færi eftir sendingu Eden Hazard. 

Þegar flestir voru að búa sig undir framlengingu lögðu Belgar af stað í skyndisókn eftir hornspyrnu japanska liðsins. Nokkrum sekúndum síðar var Nacer Chadli búinn að skora af stuttu færi eftir sendingu Thomas Meunier og belgískur sigur staðreynd. 

Belgar mæta Brasilíu í átta liða úrslitum í Kazan á föstudaginn kemur. 

Belgar fagna sigurmarkinu.
Belgar fagna sigurmarkinu. AFP
Belgía 3:2 Japan opna loka
90. mín. Leik lokið Þvílíkur sigur hjá Belgum! Þeir mæta Brasilíu í átta liða úrslitum.
mbl.is