Frumraun í 16-liða úrslitum HM

Þrátt fyrir að vera 31 árs gamall þá mun miðjumaðurinn Gustav Svensson í fyrsta sinn fá tækifæri í byrjunarliði í mótsleik fyrir sænska landsliðið í knattspyrnu í dag. Frumraunin verður í sannkölluðum stórleik, í 16-liða úrslitum á HM gegn Sviss, kl. 14 að íslenskum tíma.

Svensson hefur átt nokkuð óvenjulegan feril en hann fór frá IFK Gautaborg til Bursaspor í Tyrklandi árið 2010, og hefur einnig spilað í Úkraínu, Kína og svo í Bandaríkjunum með Seattle Sounders síðustu tvö ár. Í viðtali við Aftonbladet segir hann landsliðsþjálfarann Janne Andersson einfaldlega hafa meiri trú á sér en forveri hans, Erik Hamrén: „Ég er svona týpa af leikmanni sem sumir þjálfarar kunna við en aðrir ekki,“ sagði Svensson.

Sænskir fjölmiðlar fullyrða að það verði hann sem fylli skarð Sebastians Larssons sem tekur út leikbann í leiknum í dag. Í seinni leik dagsins, kl. 18, mætast Kólumbía og England.

Gustav Svensson.
Gustav Svensson. AFP