Ungstirnið sem gefur launin til góðgerðarmála

Kylian Mbappé hefur slegið í gegn með franska landsliðinu í knattspyrnu á heimsmeistaramótinu í Rússlandi sem fram fer þessa dagana. Frakkar eru komnir áfram í átta liða úrslit keppninnar en Mbappé skoraði tvívegis í 4:3-sigri liðsins á Argentínu í sextán liða úrslitum ásamt því að fiska vítaspyrnu í leiknum sem Antoine Griezmann skoraði úr af miklu öryggi.

Hann er yngsti leikmaðurinn í sögunni til þess að skora tvö mörk eða meira í útsláttarkeppni HM síðan brasilíska goðsögnin Pelé gerði það síðast árið 1958. Mbappé hefur nú skorað þrjú mörk á heimsmeistaramótinu en Frakkar mæta Úrúgvæ í átta liða úrslitum mótsins hinn 6. júlí næstkomandi í Nizhny Novgorod.

Mbappé fæddist í París 20. desember 1998 og verður því tvítugur í kringum áramótin. Hann er uppalinn hjá Mónakó þar sem hann sló fyrst í gegn tímabilið 2016-2017 þar sem hann skoraði 21 mark og lagði upp önnur átta í 38 leikjum fyrir franska félagið. Hann var svo lánaður til franska stórliðsins PSG síðasta sumar með því skilyrði að félagið myndi kaupa hann á 166 milljónir punda í sumar. Hann skoraði 17 mörk og lagði upp önnur 11 í 35 leikjum með PSG á síðustu leiktíð.

Hann verður næstdýrasti knattspyrnumaður heims í sumar þegar PSG borgar Mónakó 166 milljónir punda fyrir sóknarmanninn. Neymar, liðsfélagi hans hjá PSG, er sá dýrasti í sögunni en hann kostaði 198 milljónir punda síðasta sumar.

Sjá greinina í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Kylian Mbappé fagnar öðru marka sinna í sigrinum á Argentínu.
Kylian Mbappé fagnar öðru marka sinna í sigrinum á Argentínu. AFP