Vel útfærður sigur Svía

Svíþjóð og Sviss mættust í dag í næstsíðasta leik 16-liða úrslitanna í Pétursborg á heimsmeistaramótinu í Rússlandi. Svíar unnu 1:0 með marki frá Emil Forsberg

Fyrri hálfleikurinn var jafn og skemmtilegur. Sviss var meira með boltann en það voru Svíar sem fengu bestu færin. Marcus Berg fékk þannig tvö góð færi snemma leiks sem honum tókst ekki að nýta. Albin Ekdal fékk síðan besta færi fyrri hálfleiks þegar hann fékk góða fyrirgjöf frá hægri en hann hitti boltann illa og boltinn fór yfir.

Seinni hálfleikurinn var keimlíkur. Sviss hélt boltanum en varnarleikur Svía var frábær og Svisslendingar komust ekki lönd né strönd. Á 66. mínútu átti Lindelöf góðan sprett upp völlinn sem losaði að lokum um Forsberg sem átti skot í Manuel Akanji sem breytti um stefnu og í markið. Svisslendingar reyndu hvað þeir gátu en varð lítið ágengt og varnarmúr Svíanna hélt.

Í uppbótartíma leiksins slapp Martin Olsson varamaður Svía einn inn fyrir vörn Svisslendinga. Michael Lang braut á honum, fékk rauða spjaldið og dæmd var vítaspyrna. Eftir nánari skoðun myndbanda ákvað dómarinn hins vegar að dæma aukaspyrnu á vítateigslínunni. Yann Sommer varði hörkuskot  frá Ola Toivonen og síðan var leikurinn flautaður af.

Lokatölur 1:0 og Svíþjóð er komið áfram í 8-liða úrslit.

Albin Ekdal fagnar sigri Svía sem eru komnir í 8-liða ...
Albin Ekdal fagnar sigri Svía sem eru komnir í 8-liða úrslit. AFP
Svíþjóð 1:0 Sviss opna loka
90. mín. Ola Toivonen (Svíþjóð) á skot sem er varið Skomina notast við VAR. Breytir vítaspyrnudómnum í aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Hörkuskot frá Ola Toivonen en Yann Sommer ver og síðan er flautað til leiksloka!
mbl.is