Fórnar fæðingu barnsins síns

Andreas Granqvist er tilbúinn að fórna fæðingu barnsins síns til ...
Andreas Granqvist er tilbúinn að fórna fæðingu barnsins síns til þess að ná leiknum gegn Englandi í 8-liða úrslitum. AFP

Fyrirliði sænska landsliðsins í knattspyrnu, Andreas Granqvist, segist ætla að spila leikinn gegn Englandi í 8-liða úrslitum heimsmeistarakeppninnar á laugardaginn jafnvel þó að leikurinn verði á sama tíma og fæðing hans annars barns.

Kona Granqvist átti að eiga í gær þegar Svíar unnu Sviss 1:0. Granqvist hefur spilað virkilega vel á mótinu til þessa og hefur verið lykilmaður í liði Svía sem hefur aðeins fengið á sig tvö mörk í allri keppninni. Þá hefur Granqvist skorað tvö mörk sjálfur, úr vítaspyrnum.

„Ég ætla að vera um kyrrt. Konan mín er sterk manneskja og við vissum hvernig staðan væri áður en ég kom hingað. Ekkert hefur gerst hingað til. Ef ég get flogið heim í flýti þá mun ég gera það. En hvað sem gerist þá mun ég ekki missa af 8-liða úrslitunum.“

Granqvist segir að liðið sé betra eftir að Zlatan Ibrahimovic hætti með landsliðinu.

„Við spilum mjög góða og þétta vörn. Við misstum mörg stór nöfn og við þurfum að byrja frá grunni þar sem við spilum með 23 leikmenn, ekki bara einn eða tvo. Við höfum lagt mjög hart að okkur og við höfum sýnt að við vinnum fyrir hver annan sem ein heild. Það er styrkur Svíþjóðar á þessu heimsmeistaramóti," segir Granqvist, sem hefur leikið með Krasnodar í Rússlandi frá 2013 og spilaði þar um tíma við hlið Ragnars Sigurðssonar í vörn liðsins.

mbl.is