Fjórir heimsmeistarar eftir í Rússlandi

Eden Hazard og Neymar mætast á morgun þegar Belgía mætir ...
Eden Hazard og Neymar mætast á morgun þegar Belgía mætir Brasilíu. AFP

Fjórar þjóðir sem hafa hampað heimsmeistaratitli karla í knattspyrnu eru komnar í átta liða úrslitin á HM 2018 í Rússlandi sem verða leikin á morgun og á laugardaginn.

Fimmfaldir heimsmeistarar Brasilíu freista þess að bæta enn einum titlinum í safnið. Engin þjóð hefur unnið keppnina jafnoft og þá hefur brasilíska liðinu núna tekist að komast í sjö skipti í röð í átta liða úrslitin.

Síðast mistókst Brasilíumönnum að komast þangað árið 1990, á Ítalíu, þegar Argentína sló þá út í sextán liða úrslitum og Claudio Caniggia skoraði sigurmarkið, 1:0.

Úrúgvæ hefur tvisvar orðið heimsmeistari en 68 ár eru liðin frá seinni titlinum sem liðið vann í nágrannaríkinu Brasilíu árið 1950. Frakkland vann heimsmeistaratitilinn í fyrsta og eina skiptið á sínum heimavelli fyrir tuttugu árum og England varð heimsmeistari fyrir 52 árum, einnig á heimavelli.

Svíar fjórum sinnum í undanúrslitum

Af hinum fjórum þjóðunum eiga Svíar mesta sögu á HM en þeir hafa fjórum sinnum komist í undanúrslit, þrisvar komist á verðlaunapall og og einu sinni leikið sjálfan úrslitaleikinn, þegar þeir töpuðu 5:2 fyrir Pelé og félögum í brasilíska liðinu í Stokkhólmi árið 1958.

Króatar og Belgar hafa komist einu sinni í undanúrslit hvor þjóð. Belgar urðu fjórðu í Mexíkó árið 1986 og Króatar hrepptu bronsið í frumraun sinni á HM árið 1998 þegar þeir lögðu Hollendinga að velli í leiknum um þriðja sætið. Rússar eru eina þjóðin sem aldrei áður hefur komist í átta liða úrslitin en sem aðili að Sovétríkjunum komust þeir þó einu sinni í undanúrslit.

Sjá greinina í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »