„Óheiðarlegasta lið sem ég hef spilað á móti“

John Stones sagði að Kólumbía væri óheiðarlegasta lið sem hann …
John Stones sagði að Kólumbía væri óheiðarlegasta lið sem hann hafi spilað á móti. AFP

Miðvörður enska landsliðsins í knattspyrnu, John Stones, segir að landslið Kólumbíu sé óheiðarlegasta lið sem hann hafi mætt á ferlinum. Þetta sagði hann eftir að England hafði slegið Kólumbíu út í vítaspyrnukeppni í 16-liða úrslitum heimsmeistarakeppninnar en leikurinn þótti afar harður.

„Það besta fyrir okkur er að við unnum þá í fótbolta og það meiðir þá mest. Þeir eru komnir í flugvélina heim en við í næstu umferð,“ sagði John Stones eftir leikinn við Kólumbíu.

Wilmar Barrios slapp með gult spjald eftir að hafa skallað Jordan Henderson. Kólumbímenn umkringdu síðan Mark Geiger dómara leiksins eftir að hann dæmdi víti á Carlos Sánchez fyrir brot á Harry Kane.

„Leikurinn var mjög skrýtinn. Þetta er óheiðarlegasta lið sem ég hef spilað á móti. Þegar við fengum víti umkringdu þeir dómarann, þeir ýttu við honum, skallann sem þið hafið öll séð, tilraunin til að skemma vítapunktinn og mikið af öðrum atriðum sem þið vitið örugglega ekki um.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert